Þórdís kolbrún, nægir ekki að hafa bara einn ríkisflokk?

Margt vekur furðu í grein sem birtist um helgina eftir Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur ráðherra Sjálfstæðisflokks. 

Þannig vantar ekki hrokann í eftirfarandi málsgrein:

“Í fjöldahreyfingu á borð við Sjálfstæðisflokkinn fylkjum við okkur um grundvallarhugsjón en leyfum okkur rökræðu um annað - og sækjum beinlínis kraft í málefnalegt samtal. Okkur þykir langsótt að stofna stjórnmálaflokk um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvað þá að stofna flokk um að auka eignarhald ríkisins að fjármálafyrirtækjum.”

Þvílík þröngsýni og skortur á virðingu fyrir valfrelsi og lýðræði.

Engum þyrfti að koma á óvart þó einhverjir úr hópi svartstakka Sjálfstæðisflokksins töluðu svona, úrillir karlar á áttræðisaldri eins og Björn Bjarnason, Styrmir Gunnarsson, Davíð Oddsson eða Óli Björn Kárason. En að þrítug kona sé svona gamaldags, veldur undrun og vonbrigðum.

Þórdís Kolbrún, er ekki best að hafa bara einn flokk, Ríkisflokkinn eins og Marteinn Mosdal lagði til?

Flokkarnir eru hvort sem allir komnir á framfæri ríkisins. Þið hækkuðuð styrki til þeirra um 127% við afgreiðslu síðustu fjárlaga og ráðstafið 650 milljónum króna til þeirra af skattpeningum þjóðarinnar á þessu ári.

Svo talar hún um að ekki hafi dregið úr erindi Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum. Það er einungis rétt mat ef helsta erindi flokksins í stjórnmálum er að leiða sósíalista til öndvegis í ríkisstjórn og að lyfta Steingrími J. Sigfússyni í virðingarstól forseta Alþingis - eins og í þakklætisskyni fyrir að hafa skipulagt aðförina að Geir Haarde og Landsdómshneykslið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur engar hugsjónir lengur. Þess vegna hefur hann minnkað úr því að vera 37% flokkur í að vera 25% flokkur einungis á tíu árum. Flokkurinn virðist ekki hafa annað hlutverk en erindrekstur fyrir sægreifa og bændahöfðingja.

Þórdísi langar einhver ósköp að verða varaformaður í þessum hugsjónagelda flokki!

Gangi henni vel. Hún ætti þá að beita sér fyrir að sameina Framsóknarflokkana þrjá sem mynda núverandi vinstri stjórn.

Það væri skref í áttina að Ríkisflokki Marteins Mosdal.

Rtá.