Það er verið að snuða okkur svakalega!

Friðrik nokkur Höskuldsson hefur gert sláandi uppgötvun í matvörubúðum innanlands, að eigin sögn. Hann birti færslu á facebook fyrir nokkrum árum sem hefur verið blásið lífi í á facebook síðustu daga. Þar segir Friðrik að verstu spár og viðvaranir um verðmerkingar á áleggsbréfum muni ganga eftir. \"Allar umbúðir jafn þungar, ef þið munið,\" skrifar Frirðrik. Á tímum umræðu um græðgi í samtímanum hefur færsla Friðriks fengið nýja vængi, nýtt flug.

\"Nú var ég að koma úr verslunarferð og af stráksskap mínum ákvað ég nú að vigta vörurnar þegar ég kæmi heim. Er búinn að sitja við það núna, og er alveg hreint furðulostinn yfir útkomunni!\"

Friðrik birtir með færslu sinni töflu sem fylgir hér að ofan. Hann segir að nánast allar íslenskar vörur séu undir uppgefinni vigt, allt nema Ora maísbaunirnar! \"En lítið á neðri hluta listans þar sem ég tek erlendu vörurnar sér. Þær ná allar vigt og gott betur margar hverjar.\"

Hið rómaða íslenska siðferði, yfirburðir hinnar norrænu þjóðar sem t.d. forsætisráðherra og forseta íslands verður svo tíðrætt um, eiga sér enga stoð í veruleikanum ef marka má athugun Friðriks. \"Ef ég reikna vörurnar í verð pr. gramm miðað við strimil og og uppgefin kílóverð, þá er munurinn svakalegur í krónum. Samkvæmt þessu var ég snuðaður um 1421 krónu á íslensku vörunum, en fékk þó 546 krónur til baka af þeim erlendu.\"

Með öðrum orðum má treysta því að ef maður kaupir áleggsbréf með segjum innfluttri parmaskinku má treysta því að framleiðandi/seljandi snuði mann ekki. Ef varan er framleidd hér á landi, tökum hangikjöt sem dæmi, virðist fremur sérstakt lán en regla ef maður verður ekki snuðaður. Hreinlega rændur.

\"Það er eitthvað alvarlegt orðið að í þessu samfélagi. Hér komast menn orðið upp með að gefa upp rangar þyngdir svo talsverðu munar á íslenskum vörum, en geta ekki logið neinu með þær erlendu. Endilega vekjið máls á þessu við þartilbæra. Það er verið að snuða okkur svakalega,\" segir Friðrik.

Leit á Internetinu leiðir í ljós að saga Friðriks er ekkert einsdæmi. Þannig má lesa frásögn neytanda á bland.is:

\"Það kraumar í mér reiði. Þannig er mál með vexti, að ég var að koma úr smá verslunarferð í Hagkaup, Garðabæ. Fer þangað oft, en sennilega ekki aftur í bráð. Eitt af því sem var á innkaupalistanum var bréf af taðreyktu hangiáleggi, svona oná flatkökurnar. Þegar það var fundið rak ég augun í að ÖLL bréfin voru jafn þung! Þegar ég fór að skoða önnur áleggsbréf þarna í rekkanum, kom í ljós að öll áleggsbréf frá SS í sömu tegund, hvort heldur var skinka, beikon eða hvað annað voru uppá GRAMM jafn þung! Það er öllum neytendum augljóst að þetta er LYGI, og verið að leika enn einn blekkingaleikinn við okkur mörlandana. Ég hitti fyrir starfsmann þarna og benti honum á þetta rugl, og hvort hann tryði þessu sjálfur. Hann var snöggur til og sagði þetta alveg eðlilegt, bréfin væru öll jafn þung! Ég benti honum á rekkann með beikoninu, þar var ég búinn að skoða átta bréf, öll 130gr. Benti honum á að vigta þetta því ég væri handviss um að ekkert bréfanna væri jafn þungt. Það kom svo á daginn eftir vigtun. Aðspurður sagði starfsmaðurinn að þetta fyrirkomulag hefði verið tekið upp svo hægt sé að verðmerkja vöruna á rekkanum, öll bréf á sama verði. (Öll jafn þung, sem þau eru ekki!) Var þetta tilgangurinn hjá Neytendastofu, að hætta formerkingum matvæla, setja upp verðskanna og þá næsta skref svo maður geti séð bæði verð og þyngd? Það er verið að hafa okkur að algerum fíflum í þessum pissuslag Neytendastofu og verslunarinnar. Blekkingar ofaná blekkingar.\"

Græðgin virðist allt vera að drepa á þessu skeri. Aftur! Aðeins nokkrum árum eftir græðgisbóluna, bankaútrásina, hrunið, svikin, nema að núna er ekki öll heimsbyggðin mergsogin með íslenskum viðskiptaglæpum heldur aðeins við mörlandar einir. Er skemmst að minnast þess að íslensku bankarnir hafa grætt meira eftir hrun en árin fyrir hrun. Á okkur einum.

Vel má velta fyrir sér hvort hinir gráðugu og siðspilltu hér á landi séu þeir sem tala hæst fyrir óbreyttu ástandi. Að þeir sem óttist að færa þjóðinni valdið til að kjósa um ESB hafi þá aðstöðu vegna þess að með aðild yrði erfiðara en ella að svíkja, græða, sukkka og svínaría.

Fákeppnin hér á landi er eitt mesta mein samfélagsins.  Við sjáum hana hjá tryggingafélögum, hjá bönkunum, í Kauphöllinni hjá olíufélögunum, hjá versluninni, innan lífeyrissjóðanna, í útgerðinni, siðlausir viðskiptahættir virðast fremur regla en frávik. Græðgin óseðjandi púki en aðeins sumum er ætlað að græða, hinir eru sviknir miskunnarlaust.

Góða helgi, góða skemmtun í matvörubúðinni við helgarinnkaupin nú síðdegis! Góða skemmtun við áfyllingu á bensíntankinn, góða skemmtun ef eitthvað kemur upp í tryggingamálum, góða skemmtun ef þú átt ekki fyrir greiðslu í bankanum. Það kemur sumar um síðir og þá bara fáum við okkur ís, eins og sagði í áramótaskaupinu.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í kvikunni á hringbraut.is)

Uppfært kl. 11.12. Hringbraut hefur verið bent á að vigtunarmál hjá Friðriki Höskuldssyni hafi verið málum blandin. Höfundur pistilsins er að vinna að framhaldsumfjöllun þar sem nýjar reynslusögur neytenda koma við sögu - en sumar þeirra styðja sterklega að neytendur séu snuðaðir.