Takk fyrir framlagið, bogi ágústsson!

Ég tók fyrst eftir Ingólfi Bjarna Sigfússyni sem fréttamanni þegar hann dekkaði náttúruhamfarir í Asíu fyrir um áratug. Hann var skeleggur og skýr, vann sig upp í varafréttastjórastöðu en var árið 2013 gerður að yfirmanni nýmiðla á Rúv.

 Nú veit ég ekkert hverju er um að kenna, gölluðum forritum, tengingum, forriturum, tæknimönnum Rúv, yfirstjórn eða hverju. En víst er að vefur Rúv hefur ekki verið sterkasta tromp almannaútvarpsins hin síðari ár. Segja mér gamlir samstarfsfélagar þar innan borðs að bæði þyki síendurteknir tæknifeilar á vefnum óásættanlegir og einnig sé það starfsmönnum mikill þyrnir í augum, að þrátt fyrir forgjöfina sem felst í opinberu fé til stofnunarinnar og allan mannskapinn sem kemur að framleiðslu efnis á Rúv, komist ruv.is sjaldnast í alefstu sætin í samræmdri vefmælingu Modernus. Til að mynda þarf Ríkisútvarpið að láta sér duga 6. sætið nú í vikunni eins og sjá má hér. Ýmsir kynnu þó að segja að mikilvægi fjölmiðlunar verði ekki mælt með aðsókn.

 En víkjum þá aftur út fyrir landsteinana. Fréttastofur segja okkur nú sögur af hryllingi og tortímingu í Sýrlandi. Neyð flóttamanna virðist ólýsanleg, en fréttirnar og þá ekki síst sláandi myndefnið hafa laðað fram margt það fegursta í margri mannskepnunni, mitt í ljótleikanum eins og hann gerist verstur. Þessar fréttir hafa þokað sumum okkar út úr eigingirninni, sjálflægninni og lúxusvandanum sem mörg okkar eru upptekin af. Ingólfur Bjarni hefur hér átt hlut að máli, hann hefur staðið sig vel í að birta efni frá Ungverjalandi sem hann hefur unnið og tengist þessum hamförum. Einnig ber að hrósa Höskuldi Kára Schram fréttamanni sem fór fyrr í vikunni fyrir hönd 365 til Ungverjalands. Þessir tveir fulltrúar ljósvakanna hafa báðir unnið þýðingarmiklar fréttir að undanförnu. Þær hafa fært okkur nálægð við einstæðan atburð og skapað samkennd. Til nokkurs er unnið með slíkri fjölmiðlun.

Þetta er nefnt til sögunnar til að benda á að þeir sem eru góðir í því að skrifa og segja fréttir eru ekkert endilega sjálfkrafa líklegir til að verða góðir í stjórnun, skriffinnsku og bókhaldi. Bogi Ágústsson virðist svo annað dæmi sé nefnt njóta sín enn betur í dag sem frískur fréttamaður og fréttalesari en sem búrókrat á Rúv. Sá sem sinnir starfi sem leikur í höndunum á honum skapar sjálfum sér mikla lífsfyllingu. Hana má meta til móts við allmargra aukaskildinga. Andstaða lífsfyllingarinnar er að gegna starfi sem hentar okkur ekki. Og haldi sumir að allt sé fengið með auknu fé sem að jafnaði fylgir forfrömun í starfi held ég að ansi margir beri ekki virðingu fyrir fólki eftir því hvaða titla það ber eða hve mikið það þénar. Heldur hve faglega það vinnur vinnuna sína og hvernig það kemur fram.

Vonandi fá nefskattsgreiðendur að sjá Ingólf Bjarna í fréttum eftirleiðis og þá ekki síst í heimsviðburðum.  Þar virðist hann eiga heima. Ég vona líka að Boga okkar Ágústsson fáum við að hafa sem lengst á skjánum. Einnig að rödd hans fái að heyrast í útvarpinu sem oftast. Ég vona að Bogi fái sem frjálsastar hendur til að vinna það sem hann kann best; fréttir. En vissulega hefur Bogi nú þegar skilað sínu á löngum ferli.

Takk fyrir framlagið, Bogi Ágústsson!