Svekktur davíð afhjúpar sig

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag lýsir Davíð Oddsson svekkelsi sínu vegna skipunar þverpólitískrar nefndar um framtíðarfyrirkomulag sjávarútvegs á Íslandi. Af þessum skrifum má ráða að Davíð ráði illa við tilfinningar sínar vegna málsins.

Sem gamalreyndur þingmaður veit Davíð betur en flestir að þegar skipað er í þverpólitískar nefndir, þá er þess gætt að allir þingflokkar eigi fulltrúa í viðkomandi nefndum án þess að reynt sé að jafna vægi innan nefnda í samræmi við þingstyrk. Því eru skrif hans í blaðinu í dag ekkert annað en kjánalegur útúrsnúningur þegar hann segir:

“Viðreisn hefur tvo fulltrúa í nefndinni og annar er að auki formaður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn og Samfylkingin einn. Ef horft væri til vilja þjóðarinnar í síðustu kosningum myndi Samfylking áfram hafa einn en Sjálfstæðisflokkurinn sjö!”

Davíð veit betur. Ólund hans ræðst af því að fjandvini hans úr Sjálfstæðisflokknum, Þorsteini Pálssyni, er sýnt það traust og sú virðing að leiða nefndina. Það er meira en Davíð sjálfum hefur boðist síðan hann lét af þingmennsku og ráðherradómi. Gamli flokkurinn hans hefur ekki viljað fela honum nein trúnaðarstörf sem kom best fram í því að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafnaði því fyrir tveimur árum að skipa Davíð Oddsson formann Landsvirkjunar sem hann sóttist eftir. Bjarni valdi til starfans rólyndan lögmann úr Hafnarfirði sem gegnir formennsku í Landsvirkjun ennþá. Davíð mun hafa sárnað þessi höfnun mikið. Það er alveg skiljanlegt.

Davíð hefur sóst eftir viðurkenningum og upphefð eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur rak hann úr Seðlabanka Íslands vorið 2009. Honum hefur ekki orðið ágegnt í því efni. Forsetaframboðið vorið 2016 er besta dæmið um hug kjósenda gagnvart þessum gamla og fyrirferðarmikla forystumanni þjóðarinnar. Davíð fékk einungis 13% atkvæða í forsetakjörinu og hafnaði í fjórða sæti, næstur á eftir Andra Snæ Magnasyni og næstur á undan Sturlu Jónssyni bílstjóra. Davíð Oddsson náði ekki einu sinni að fá stuðning helmings kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem náði 29% fylgi í þingkosningunum sl. haust.

Menn sem ráða ekki við ergelsi og vonbrigði ættu að telja upp að tíu áður en þeir afhjúpa sig opinberlega.

 

-rtá.