Sveinn Andri ekki sáttur og fleiri taka undir: „Þetta eru helgispjöll og ekkert annað“

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður hefur sterkar skoðanir á þeirri ákvörðun að breyta þýðingum tveggja Tinnabóka sem notið hafa gríðarlegra vinsælda hér á landi sem víðar undanfarna áratugi.

„Þetta eru helgispjöll og ekkert annað,“ segir Sveinn Andri á Facebook-síðu sinni og deilir þar frétt Vísis þar sem fjallað var um málið.

Þar kom fram að aðdáendum Tinnabókanna hefði brugðið þegar þeir ráku augun í nafnabreytingu í tveimur bókanna. Endurútgáfa bókanna hjá Froski fór af stað fyrir rúmum tveimur árum og eru þær í þýðingu Anítu K. Jónsson. Jean Antoin Posocco, útgefandi hjá Froski, sagði að nýja þýðingin sé nútímalegri og hugmyndin sé að ná betur til yngri lesenda.

Svaðilför í Surtsey heyrir nú sögunni til og er hún nú kennd við Myrkey. Þá er búið að breyta nafninu á bókinni Skurðgoðið með skarð í eyra og heitir hún nú Ævintýri Tinna: Arumbaya-skurðgoðið.

Sveinn Andri er ekki sáttur við þetta eins og kemur glögglega í ljós í skrifum hans.

„Í fyrsta lagi eru þýðingar Þorsteins Thorarensen bókmenntaleg snilld; leiftrandi fyndnar og að sögn kunnugra oft á tíðum betri en frumtextinn.

Það má ráða af viðtalinu við hinn nýja útgefanda að honum þyki heitið Surtsey hafa rasískan undirtón, en segir síðan að „Myrkey" komist nær upprunalega titlinum. Málið er að í upprunalegri útgáfu heitir bókin „L'lle Noire" og í enskri þýðingu „The Black Island". Í báðum tilvikum er vísað í svartan lit, en ekki myrkur,“ segir hann.

Hann bendir á að Surtsey, sem varð til árið 1963 hafi fengið nafn sitt vegna hinnar svörtu gjósku sem eyjan varð til í og nafnið sé vísun í norræna goðafræði. Það hafi ekkert með myrkur að gera. Svaðilför í Surtsey sé fullkominn titill, enda eyjan í myndinni kolsvört en ekki myrk. Myrkey sé eins og hvert annað „heilafretur“ segir hann.

Um hina bókina segir hann:

„Skurðgoðið með skarð í eyra" heitir á frummálinu „L'oreille Cassee" eða „The Broken Ear" í enskri þýðingu. Gamli titillinn er mun nær upprunalega textanum; eitthvað annað en „Arumbaya-skurðgoðið"!! Þýðingar Þorsteins eru klassískar og hafa hrifið Íslendinga í meira en hálfa öld og gera enn. Það er reginn misskilningur að þýðingar hans nái ekki til yngri lesenda. Það er eins og hvert annað skemmdarverk að nota ekki þýðingar hans.“

Illugi Jökulsson rithöfundur tekur undir þetta hjá Sveini Andra en bendir þó á:

„Rétt hjá þér. En Surtsey var nú bara nefnd eftir Surti eldjötni sunnan úr Muspellsheimi, eftir að hún kom úr hafi syðst íslenskra eyja: Surtur fór sunnan / með sviga lævi, / skín af sverði / sól valtífa ...“

Og Þorfinnur Ómarsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður, gerir það einnig og segir:

„Magnað klúður, sögulegt. Báðir nýju titlarnir hreinasta hörmung. Vonandi verða þeir ekki fleiri.“