Íslenskt fjölskylduefni, já takk!


\"Hvað er í sjónvarpinu í kvöld?\" Spurðu krakkarnir vongóðir, fimm ára gömul stelpa og átta ára gamall drengur.
Við vorum stödd uppi í sveit í gærkvöld. Bara ein stöð opin í sjónvarpinu, stöðin sem við þurfum alla daga að greiða fyrir. Með illu eða góðu.
Við renndum þrjú saman yfir dagskrána fram undan. Þegar ég las \"Söngvakeppni Sænska sjónvarpsins\" og sá að gert væri ráð fyrir að hún myndi vara í 130 mínútur á \"prime time\" allrar sjónvarpsvikunnar féllust mér hendur.
Við drógum fram Matadorið og mér fannst verst að geta ekki keypt Ríkisútvarpið í spilinu, minn kæra gamla vinnustað. Meðan börnin gerðu mig hægt en markvisst gjaldþrota með uppkaupum á brúnum, rauðum og hvítum götum í Matador, þar sem þau reistu hótel í gríð og erg í takti við raunveruleikann árið 2016, gaut ég augunum nokkrum sinnum á hljóðlausan skjáinn. Þá varð manni ljóst með samanburðinum að íslenska undankeppnin var ekki samanburðarhæf. En hún er samt okkar!

Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að íslenskt barn eyðir ekki heilu laugardagskvöldi yfir sænsku júróefni. Ekki nema það sé mjög langt gengið af einhverjum kvillum! Eða sé markvisst stýrt af nauðhyggju foreldra sem hafa vanist með illu að greina ekki mun á efni sem við eigum rétt á að fá hjá ríkissjónvarpi og hins sem dembt er yfir okkur, oft að því er virðist vegna geðþótta fremur en fagmennsku. Mér dettur reyndar enginn annar hópur en börn í hug sem myndi óska sér svona efnis á laugardagskvöldi ef annað væri í boði. Nema kannski Svíar. En við erum ekki Svíar. Íslenskar fjölskyldur ættu að geta treyst því á laugardagskvöldi að a.m.k. ein íslensk dagskrárgerð eða einn talsettur þáttur væri í boði á þessu léttasta kvöldi vikunnar áður en yngri börn fara almennt að sofa. Þessi pistill er óður til réttinda yngri barna, barna sem kunna aðeins eitt tungumál, okkar ástkæru, ylhýru íslensku.

Kæru rúvarar! Íslenskt fjölskylduefni, já takk. Einkum um helgar.

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is)