Stjórnmál, trúnaður og tilfinningar

Fulltrúar gömlu valdaflokkanna reru á kunnuglegum miðum að mestu á Alþingi í gær þegar umræður fóru fram um stefnuræðu forsætisráðherra. Víða mátti þó greina sáttatón í þeirra röðum í stað offorsins og herhvatarinnar sem einkennt hefur orðræðu þingmanna fyrri helming kjörtímabilsins. Engum dylst hugur að rödd hins óánægða Íslendings í fylgiskönnunum hefur hér mikil áhrif. En betur má ef duga skal.

Haft var á orði í þingumræðunum í gærkvöld að valdaflokkarnir gömlu væru „úldnar“ stofnanir og víst er að rof hefur orðið milli þings og þjóðar þegar kemur að pólitískum áherslum og kannski ekki síður misbeitingu ráðamanna á valdi. Mál Hönnu Birnu hefur svo eitt dæmi sé nefnt aukið mjög á vanda ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt  mikla iðrun vegna þess, meira hefur borið á hroka.  Túlka hefur mátt ummæli sumra sjálfstæðismanna þannig að illa sé komið fyrir stjórnmálunum ef almenningur og frjálsir fjölmiðlar ná slíkum ítökum í samfélaginu að bölvað réttlætið verði mál málanna!  Hanna Birna hampar nú nýju trúnaðarembætti innan þingsins sem formaður Utanríkismálanefndar. Sitthvað bendir til að Hanna Birna verði kjörin áframhaldandi varaformaður flokksins á næsta Landsfundi. Almenningur hryllir sig en á sama tíma klóra sjálfstæðismenn sér í kollinum og fatta engan veginn af hverju þeim gengur ekki betur í skoðanakönnunum.

Hið firrta maraði víða undir yfirborðinu í umræðunum á Alþingi í gær. Loforð um betri framtíð og jákvæðar hagtölur eru ekki lengur valíum fyrir órólegan almenning, sem leggur huglægt mat á lýðræðisstöðuna ekki síður en hlutlægt. Margoft hefur komið fram að almenningur telur þörf á að gjörbylta stjórnmálunum með virkara lýðræði, nýrri stjórnarskrá og almennri siðbót. Þar stendur einn hnífurinn í kúnni.

Þó mátti líka greina hressandi blæ og jafnvel frumleika í ræðum þingmanna í gærkvöld.  Birgitta Jónsdóttir vílaði ekki fyrir sér að flytja eldmessu í beinni útsendingu þar sem hún sagði forseta Íslands til syndanna eftir að hann tók sér alræðisvald við þingsetningu fyrr um daginn. Hún varpaði líka upp mynd af forsætisráðherra sem týndum og saklausum stráklingi með tilvitnun í gamla barnagælu. Þeir sem hafa trúað að hinn ungi og sumpart ósjálfstæði og viðkvæmi forsætisráðherra þjóðarinnar  sé einhvers konar íslensk útgáfa af Voldemort töpuðu vopnum sínum í gærkvöld. Að minnsta kosti sumir áhorfendur sáu Sigmund Davíð í nýju ljósi vegna líkinga Birgittu.

Svo hefði einnig þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum ef þingmenn hefðu lagt út af dægurlagatextum, rætt tilfinningar, lokað augunum lengi og farið upp á Vatnajökul í dramatískum myndlíkingum líkt og Árni Páll Árnason gerði. Ræða  Óttars Proppé vakti einnig athygli margra: „Ég ætla að tala aðeins um tilfinningar,“ sagði Óttar og rakti svo hvernig afstaða fólks til manna og málefna byggði oft á tilfinningum. „Þetta á líka við um stjórnmál og þau málefni samfélagsins sem eru vettvangur stjórnvalda og Alþingis.“

Það er kannski það sem forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fleiri í kringum þá tvo virðast ekki bera skynbragð á. Það er ekki hægt að þvinga „kraftaverkum“ á fólk með aðgerðum sem koma efsta lagi samfélagsins best og segja svo við hinn sauðsvarta almenning: Veriði bara þakklát!

Stjórnmál ættu að vera gagnvirk samskipti milli almennings og kjörinna fulltrúa, þar sem hlustað er á þjóðina þegar tugir þúsunda skrifa undir mótmæli gegn valdníðslu stjórnvalda. Það er erfitt að búa aðeins við virkt lýðræði á fjögurra ára fresti. Það er ólíðandi  þegar rof verður á trúnaði milli almennings og ríkisstjórnar.

Það var óþolandi í tíð Vinstri stjórnarinnar og það er óþolandi núna.