Stjórnarmenn munu falla hjá icelandair group

Fimmtudaginn 8. mars verða breytingar á stjórn Icelandair Group. Einn núverandi stjórnarmanna gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn, fjórir gefa kost á sér áfram og þrír nýjir bjóða sig fram.

 

Talið er að Úlfar Steindórsson formaður sé öruggur um endurkjör og einnig Guðmundur Hafsteinsson sem studdur er af Stefni sem er næst stærsti hluthafinn í Icelandair Group.

 

Hinir fimm munu berjast um þau þrjú sæti sem eftir standa. Þeir eru Heiðrún Jónsdóttir, Ómar Benediktsson, Helga Viðarsdóttir, Ásthildur Óttarsdóttir og Katrín Olga Jóhannesdóttir.

 

Ómögulegt er að spá um niðurstöðu þessara kosninga. Talið er að Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna láti Ásthildi hafa talsvert af atkvæðum sínum og það munar um minna. Vitað er að Katrín Olga var valin af Íslandsbanka til setu í stjórn félagsins árið 2009 þegar bankinn hélt á 40% atkvæða sem hann hefur fyrir löngu selt. Bankinn á nær ekkert í Icelandair en Katrín Olga situr enn í stjórn út á gamla tíma. Mörgum hluthöfum þykir tími kominn til að á því verði breyting. Þá olli það talsverðu uppnámi þegar hún seldi það sem hún átti í félaginu, rétt fyrir birtingu mjög vondra upplýsinga, til að borga útgjöld vegna sumarbústaðar upp á 9 milljónir króna. Verð hlutabréfa féll við það um 7%. Margir fjárfestar hafa ekki enn fyrirgefið henni þessa feramkomu. Á morgun kemur á daginn hvort þeir muni fylgja því eftir eða fyrirgefa henni afglöpin.

 

Icelandair Group er lykilfyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu og í viðskiptalífi landsmanna almennt. Miklu varðar hvernig tekst til varðandi val á stjórnarmönnum í félaginu. Úlfar Steindórsson formaður félagsins er þrautreyndur maður úr viðskiptalífinu. Honum gæti nýst vel að fá nýtt og ferskt fólk til samstarfs í stjórn félagsins.

 

Vonandi verða úrslit kosninganna á morgun félaginu og hluthöfum þess til góðs.

 

Rtá.