Stétt með stétt er liðin tíð í sjálfstæðisflokknum

Hér á árum áður starfaði Sjálfstæðisflokkurinn undir því ágæta slagorði STÉTT MEÐ STÉTT. Það var réttnefni á þeim tíma vegna þess að mismunandi stéttum og hópum var sinnt vel innan flokksins. Þá voru verkalýðsleiðtogar í hávegum hafðir og áttu sæti á Alþingi og í sveitarstjórnum. Flokkurinn lagði þá áherslu á það í prófkjörum að tryggja stuðning við frambjóðendur úr þeirra hópi.

 

Á þeim tíma völdu flokkshollir menn gjarnan þannig í prófkjöri að til viðbótar við helstu forystumenn flokksins var munað eftir “konunni”, “unga manninum” og “verkalýðsleiðtoganum”. Einn fulltrúi frá hverjum þessara hópa.

 

Lengi vel settu verkalýðsleiðtogar svip sinn á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Dæmi um það eru menn eins og Pétur Sigurðsson sjómaður, Guðmundur H. Garðarsson, Magnús L. Sveinsson, Guðjón Sigurðsson í Iðju, Hilmar Guðlaugsson múrari og Guðmundur Hallvarðsson. Nú er ekki einn einasti maður úr launþegastétt í forystuliði flokksins. Það er algerlega búið að þurrka þann hóp út.

 

Sama er hægt að segja um íþróttaleiðtoga sem lengi vel settu svip sinn á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. En enginn slíkur á lengur upp á pallborðið hjá Sjálfstæðisflokknum. Áður sátu miklir áhirfamenn úr íþróttum á Alþingi fyrir flokkinn og í borgarstjórn. Nefna má Úlfar Þórðarson, Gísla Halldórsson, Albert Guðmundsson, Ellert B. Schram, Júlíus Hafstein og Svein Björnsson. Nú er enginn slíkur í trúnaðartörfum fyrir flokkinn.

 

Íþróttahreyfingin og launþegahreyfingin eru tvær fjölmennustu hreyfingar landsins. Áður gætti flokkurinn að tengslum sínum við þær en ekki lengur. Þarna er líklega komin ein af skýringunum á því að Sjálfstæðisflokkurinn er nú að festast í 25% fylgi á landsvísu en var áður með á bilinu 35% til 40% kjósneda á bak við sig.

 

Albert Guðmundsson talaði fyrir “mannúð og mildi” í stjórnmálastörfum sínum og reyndist vera “vinur litla mannsins”. Út á þannig stefnu náði hann vinsældum og fylgi til hagsbóta fyrir Sjálfstæðisflokkinn meðan hann starfaði þar. Nú er enginn þingmaður á vegum flokksins sem hefur þannig áherslur í störfum sínum. Flokkurinn lagði áður áherslu á “manngildi og menningu”. Nú einkennist starf þingmanna meira af græðgi og hroka.

 

Til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti snúið vondri þróun við sér í hag, þarf bæði hugarfarsbreytingu og nýja forystu.

 

Það þarf að setja manngildið í forgrunn að nýja og það þarf að skipta út flestum af núverandi þingmönnum fyrir nýja og betri.

 

Það er hægt því þrátt fyrir allt er svo margt öflugt og gott fólk innan raða Sjálfstæðisflokksins. Þannig fólk hefur bara ekki fengist til að gefa kost á sér í framboð fyrir flokkinn í seinni tíð. Vonandi verður ráðin bót á því.

 

Rtá.