Steingrímur sigfússon skipulagði níðingsverkið gegn geir haarde

Þegar niðurstaða Mannréttindadómstólsins í Strassborg liggur nú fyrir, rifjast þetta ógeðfellda mál upp sem rekið var gegn Geir Haarde fyrir Landsdómi.

Pólitísk réttarhöld voru þá sett upp á Íslandi í fyrsta og eina skipti í sögu landsins. Geir var sýknaður af öllum ákæruliðum nema einum. Honum var gefið að sök að hafa ekki haldið nógu marga formlega ríkisstjórnarfundi í aðdraganda hrunsins þó hann hafi verið í stöðugu sambandi við ráðherra ríkisstjórnarinnar á þessum mikla örlagatíma! Niðurstaða Landsdóms var sýndarmennska og tilraun til að miðla málum milli réttlætis og hefndarþorsta.

Þetta er einn af þeim atburðum sem landsmenn vilja gleyma. En þurfa nú að rifja upp vegna niðurstöðu Mannréttadómstólsins sem birt var í dag.

 Úr því að við þurfum að staldra við þetta ljóta mál, þá er vert að rifja það upp að Steingrímur J. Sigfússon stýrði aðförinni að Geir Haarde í þinginu. Hann og nokkrir aðrir þingmenn plottuðu þá niðurstöðu að Geir yrði einn dreginn fyrir landsdóm en þrír aðrir ráðherrar sluppu, þar á meðal Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Margir þeirra þingmanna sem stóðu að þessu níðingsverki hafa síðar tekið út þjáningar vegna verknaðarins og sumir jafnvel verið það stórir í sér að biðjast opinberlega afsökunar. Það á ekki síst við um Ögmund Jónasson sem talað hefur opinskátt um málið og viðurkennt mistökin.

 

Innan Sjálfstæðisflokksins var mikil reiði og illska út af þessu máli. Sumir forystumenn flokksins gátu ekki dulið ríkar tilfinningar sínar eins og t.d. Bjarni Benediktsson, formaður, sem beygði af og táraðist í ræðustól á landsfundi flokksins þegar hann ræddi um svívyrðilega framkomu þingmeirihlutans við Geir Haarde og sagði að þessa framkomu myndi Sjálfstæðisflokkurinn aldrei fyrirgefa.

 

Í næstu viku ætlar þessi sami Bjarni Benediktsson að leiða níðinga Landsdómsmálsins til æðstu metorða í ríkisstjórn landsins. Hann er greinilega búinn að þerra tárin. Bjarni ætlar að gera Katrínu Jakobsdóttur að forsætisráðherra, fyrsta allra sósóalistaleiðtogu á Íslandi, en hún kaus með því að draga Geir fyrir Landsdóm. Bjarni ætlar að styðja Sigurð Inga Jóhannsson til að gegna ráðherraembætti en hann kaus með því að draga Geir fyrir landsdóm og loks ætlar Bjarni Benediktsson að lyfta Steingrími J. Sigfússyni upp í stól forseta Alþingis þar sem hann verður einnig einn af handhöfum forsetavalds. Steingrímur studdi ekki bara aðförina að Geir, hann skipulagði hana og sá um að allt stefndi í hausatalningu á Alþingi þegar Geir Haarde var fórnað – einum.

 

Fyrir þessa sakaruppgjöf gagnvart þeim sem fórnuðu fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins fær Bjarni að sitja áfram í ríkisstjórn. Hann getur hreiðrað um sig á ráðherrastól enn um sinn. Og hann er hættur að tárast út af Geir Haarde.

 

Rtá.