Spennandi formannsslagur í ksí

Ljóst er að framundan eru spennandi kosningar um formann KSÍ en þegar hafa þeir Guðni Bergsson og Björn Einarsson gefið kost á sér og fleiri gætu verið á leiðinni.

Geir Þorsteinsson tilkynnti í gær að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður KSÍ þvert á það sem hann hafði áður sagt. Eftir að Guðni Bergsson tilkynnti um framboð sitt í desember, varð Geir það smám saman ljóst að hann yrði undir í formannskjöri og valdi því að stíga niður með þessum hætti.

Þó svo landslið Íslands hafi átt góðu gengi að fagna og staða KSÍ sé sterk, hefur gagnrýni á forystu samtakanna verið að aukast. Innan knattspyrnuhreyfingarinnar  er það útbreidd skoðun að stjórn KSÍ hafi stundum gleymt því fyrir hvern hún er að vinna. KSÍ er ekkert annað en knattspyrnuhreyfingin sjálf og henni ber að þjóna en ekki hópi stjórnarmanna og starfsmanna sem komið hafa sér þægilega fyrir og láta allt of oft sem þeir “eigi” KSÍ, eins og oft heyrist í umræðunni.

Enginn hefur gott af því að sitja of lengi á valdastólum, hvort heldur er í félagsstarfi eða öðru. Kominn var tími á Geir Þorsteinsson, þó svo ekki sé gert lítið úr ýmsu sem hann hefur staðið fyrir. Ber þar hæst ráðning landsliðsþjálfaranna Lars og Heimis sem leiddu landslið karla til glæsilegra sigra á síðasta ári.

Talsverð umræða hefur verið manna á milli um þá hirð sem Geir hélt í kringum sig. Talað hefur verið um óhóflegan fjölda fararstjóra og annarra sem hafa verið hafðir með í för þegar landsliðin hafa ferðast um heiminn. Þykir kotnaður og risna varðandi þetta heldur óhófleg og erfitt hefur verið að skilgreina hlutverk sumra í þessum “ferðaklúbbi”. Þá er talið að landsliðsnefnd sé að mestu óþörf og frekar fyrir en hitt.

Hafa verður í huga að landsliðin hafa breyst mikið á seinni árum. Þau eru skipuð metnaðarfullum atvinnumönnum sem taka hlutverk sitt alvarlega. Þeir vilja einnig að unnið sé faglega utan vallar og þeir sætta sig ekki við neina lausung.

Guðni Bergsson á 80 A-landsleiki að baki og langan knattspyrnuferil hér heima og erlendis. Hann var fyrirliði liða sinna mestan sinn feril, allt frá yngri flokkum í Val, lengst af með landsliðinu og einnig í atvinnuliðum á Englandi. Hann lék m.a. með Tottenham og Bolton um árabil. Guðni þykir koma einkar vel fyrir og ætti að geta orðið glæsilegur leiðtogi knattspyrnunnar í landinu. Hann er lögfræðingur að mennt.

Björn Einarsson hefur lengi starfað í forystu Víkings í Reykjavík, m.a. sem formaður félagsins. Hann hefur ágæta stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu og þykir einnig frambærilegur maður sem kemur vel fyrir. Hann er með viðskiptamenntun.

Allt eins er talið að fleiri bjóði sig fram til formanns, jafnvel einhver úr núverandi stjórn.