Sól slær silfri á ísland

Ísland er ekki ónýtt. Ísland er land sem hefur getið af sér harðduglega þjóð, hóp fólks sem náttúruöflin hafa sorfið þannig til að minnir á slípaðan demant þegar best lætur.

Dæmi um þetta er frammistaða íþróttafólks landsins. Karlarnir eru farnir að spila eins og kerlingar eins og Sóley Tómasdóttir orðaði það – og átti þar hnyttilega við að fótboltastelpurnar okkar voru á alþjóðlegan mælikvarða fyrri til að ná evrópuárangri en strákarnir okkar. Svo hefur karlalandsliðinu í körfubolta tekist að verða heiminum öllum fyrirmynd. Það er þó ekki síst stuðningsmönnum liðsins að þakka.

Í átökum um opinbert fé hefur íþróttum og listum stundum verið stillt upp sem andstæðum pólum. Hafi einhverjum dottið í hug að trúa slíkri vitleysu hefur ástarsamband íþrótta og lista síðustu daga hrakið þá kenningu í eitt skipti fyrir öll. Það sem lyft hefur árangri okkar íþróttamanna í hæstu hæðir – langt út fyrir landamæri íþróttaáhugafólks - er hvernig stuðningsmenn landsliðanna okkar hafa nýtt sér sönglistina til að lyfta líðandi stundu í æðra veldi. Jón Leifs sagði að tónlistin væri sjálfur Guð almáttugur. Margir upplifðu enda eitthvað sem segja má að hafi upphafið hið veraldlega þegar  áhangendur íslenska körfuboltaliðsins kyrjuðu „Sól slær silfri á voga“ eftir tapleikinn gegn Tyrkjum í Þýskalandi í gærkvöld. Stuðningsmenn fótboltastrákanna okkar höfðu rutt brautina með söng á sama lagi nokkrum dögum fyrr, þegar við gerðu jafntefli við Kazakstan í Laugardalnum og tryggðum okkur sæti í lokamóti EM. En fegurðin í söng áhangenda körfuboltadrengjanna okkar fólst í því að þeir sungu sitt fegursta og það langt utan heimalandsins þótt við töpuðum leiknum. Sá sem vinnur sigur á að jafnaði stuðning vísan hjá alþýðunni en að tapa leik en hljóta samt hyllingu sigurvegarans, rammaða inn með „guðlegu“ tónaflóði,  setti í raun nýtt viðmið um samband íþróttar og listar.

Auðvitað er list að verða góður í íþróttum. Auðvitað þarf þjálfun, aga, keppnisskap og úthald til að verða góður í listum. En það er ekki oft sem sýnt hefur verið fram á samband þessa tvenns með eins augljósum hætti og síðustu daga. Það gæti verið stefnuviti til framtíðar þegar kemur að hinu árlega rifrildi um hvort íþróttir eða listir skuli vera rétthærri að hvorug greinin getur án hinnar verið,  sömu eiginlega þarf fyrir afrek af öllu tagi. Söngíþrótt okkar fólks í Berlín er dæmi um það. Hún var borin uppi af listrænni ást – í þágu glæsilegrar íþróttar.