Snorra var veitt tiltal og áminning

Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra á Akureyri og bæjarlögmanni, Ingu ÞöllÞórgnýsdóttur, hefur verið falið að ganga til samninga við Snorra Óskarsson, kennara, sem oft er kenndur við Betel. Ekki er tímabært að ræða niðurstöðu fyrirfram þegar gengið er til samninga, segir bæjarstjóri í samtali við Hringbraut en komið hefur fram að Snorri vilji 12 milljónir króna í bætur eftir að hann missti starf sitt sem kennari í Brekkuskóla á Akureyri í kjölfar ummæla sem talin voru meiða minnihlutahóp samkynhneigðra þannig að ekki yrði við unað.

\"Niðurstaða Hæstaréttar í máli Akureyrarbæjar gegn Snorra Óskarssyni, grunnskólakennara á Akureyri, eru vonbrigði fyrir Akureyrarbæ enda taldi sveitarfélagið sig í fullum rétti að segja starfsmanninum upp í framhaldi af formlegu áminningarferli. Grunnskólakennaranum var veitt tiltal og síðar áminning vegna hatursumræðu sem hann var beðinn að láta af. Snorri Óskarsson lét sér ekki segjast heldur hélt umræðunni áfram. Hann fór þar með ekki að fyrirmælum yfirmanna sinna og var því sagt upp störfum,\" segir Eiríkur Björn bæjarstjóri

Hæstiréttur skýrði heimildarákvæði um áminningu í kjarasamningi grunnskólakennara svo að það bæri ekki með sér að heimilt væri að áminna fyrir brot utan starfs. Gildir þá einu hvort um er að ræða hatursumræðu vegna samkynhneigðar á samfélagsmiðlum eða aðra vansæmandi háttsemi, eins og hatursummæli byggð á kynþætti eða stöðu. Akureyrarbær er afar ósáttur við þessa niðurstöðu að sögn bæjarstjóra.

Í kjarasamningi segir að starfsmanni sé skylt að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess, sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

\"Það ákvæði er hins vegar ekki í áminningarákvæði samningsins. Akureyrarbær telur afar óheppilegt að grunnskólakennarar hafi starfsskyldur samkvæmt kjarasamningi sem varði engri ábyrgð en af því tilefni kom aldrei til skoðunar hvort grunnskólakennarinn hefði brotið starfsskyldur með ummælum um samkynhneigða á bloggi sínu,\" segir bæjarstjóri.

Þannig er aðeins hægt að áminna grunnskólakennara ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Þá getur forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veitt honum skriflega áminningu eftir því sem bæjarstjóri skýrir út fyrir blaðamanni Hringbrautar.

\"Þar sem hvorki eru ákvæði um réttindi og skyldur grunnskólakennara né starfsmanna sveitarfélaga í lögum, eins og á við um ríkisstarfsmenn, telur Akureyrarbær brýnt að það verði skoðað, hvort nægjanlegt sé að hafa ákvæði um skyldur starfsstétta í kjarasamningum. Bent er á að í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríksins nr. 70/1996 er ákvæði í 14. gr. þess efnis að starfsmaður skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við,\" segir Eiríkur Björn.

Guðmundur Andri Thorsson ritar grein í Fréttablaðið í dag þar sem segir m.a. \"Það er ekki hægt að skrifa haturspistla um fólk  og segja svo: \"Ég var ekki kennari á meðan ég skrifaði þetta.

Samantekt: Björn Þorláksson