Fræðimaður ýjar að spillingu sigmundar

Óhætt er að segja að mjög skiptar skoðanir séu meðal fræðafólks um yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um helgina en margir hafa túlkað ummælin sem svo að forsætisráðherra hafi vegið að akademísku frelsi háskólaráðs og hótað skólanum fjárveitingaskerðingu í kjölfar óánægju Sigmundar Davíðs með að HÍ hafi ákveðið að færa nám við íþróttakennararabraut skólans að Laugarvatni til Reykjavíkur.

Eftirfarandi var yfirlýsing Sigmundar Davíðs: \"Það er hætt við því að ákvörðun HÍ um að leggja af nám á Laugarvatni muni gera út af við hugmyndir um sameinginar [svo] eða aukið samstarf HÍ við menntastofnanir á landsbyggðinni. Þetta mun væntanlega kalla á að fjárveitingum verði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum. Menntastofnanir eru á meðal mikilvægustu innviða samfélagsins og þeir innviðir þurfa að vera traustir um allt land.\"

Hringbraut hefur áður sagt frá óánægju Eiríks Rögnvaldssonar prófessors í íslenskum fræðum við HÍ. Hann segist vel skilja óánægju með flutning íþróttakennaranámsins en bætir svo við: \" Í lögum um opinbera háskóla segir: \"Háskóli er sjálfstæð menntastofnun\" og \"Stjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskóla\". Það er alvarlegt mál að hóta skertum fjárveitingum vegna einstakra ákvarðana háskólaráðs. Það minnir á stjórnarfar í alræðisríkjum.\"

Úlfar Hauksson, sérfræðingur í alþjóðastjjórnmálum, skrifar á eigin fésbókarsíðu: \"Ég er að spekúlera hvar við erum stödd þegar forsætisráðherra hótar Háskóla Íslands - sjálfstæðri stofnun og æðstu menntastofnun þjóðarinnar sem búið hefur við fjársvelti svo árum skiptir - frekari niðurskurði vegna ákvörðunar háskólaráðs um skipulag innan skólans. Vissulega erfið og umdeild ákvörðun ráðsins en ég kannast ekki við þvílíkar hótanir úr ranni ráðherrans þegar sjávarútvegsfyriritæki færa sína starfsemi á milli landshluta eða þegar Straumsvíkurálbræðslurisinn Rio Tinto hótar starfsfólki öllu illu í sinni kjarabaráttu. Nú er ég með bók við höndina sem ég er að fara að lesa - Eftirlýstur eftir Bill Browder - og fjallar um spillingu og réttlætisbaráttu í Rússaríki Pútíns. Erum við komin að Kremlarmúrum eða jafnvel innfyrir þá í misnotkun valdsins og spillingu?\"

Allt annað sjónarhorn birtist hjá Þóroddi Bjarnasyni, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Hann skrifar á þráð áhugafólks um byggðamál á favebook, en Þóroddur er fyrrum formaður stjórnar Byggðastofnunar: \"Er ekki fullkomnlega eðlilegt að stjórnvöld marki stefnu um uppbyggingu háskólastarfs um allt land og fjármögnun taki mið af því? Minni háskólarnir utan höfuðborgarsvæðisins hafa reynt að sinna því eftir bestu getu þótt meginþorri opinberra framlaga fari til HÍ í Reykjavík. Kollegar mínir við HÍ seilast heldur langt að líta á það sem hótun að aðrir háskólar taki í auknum mæli að sér uppbygginguna utan Reykjavíkur sem HÍ kærir sig augljóslega ekki um.\"

Með því að vísa til kollega við HÍ, á Þóroddur við gagnrýni t.d. forseta læknadeildar HÍ en hann er í hópi þeirra sem hafa tjáð sig gagnrýnið um ummæli forsætisráðherra, tekið ummælin sem hótanir og Rúv hefur greint frá.

Hringbraut hefur sent Sigmundi Davíð fyrirspurn þar sem svara er óskað við því hvort forsætisráðherra eigi við að háskólar á landsbyggðunum megi nú eiga von á að fá stærri hlutdeild í fjárveitingakökunni á kostnað fjárveitinga til HÍ og hvort ummæli hans vegi að akademísku frelsi HÍ.

Sigmundur Davíð er fyrsti þingmaður NA-kjördæmis.

(Samantekt: Björn Þorláksson)