Sjallar sýna bjarna einan

Í auglýsingum Sjálfstæðisflokksins er áberandi að Bjarni Benediktsson er nánast sýndur einn. Öðrum frambjóðendum flokksins er lítið hampað og mest reynt að tefla formanninum einum fram. Þetta hefur verið reynt áður með misjöfnum árangri. Í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 2010 var Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, ein í öllum auglýsingum flokksins. Aðrir frambjóðendur voru mjög óhressir með þetta og töldu fram hjá sér gengið. Yfirstjórn kosninganna í Valhöll mat það svo að besta leiðin væri að tefla hinum “sterka leiðtoga”, Hönnu Birnu, einni fram. Og þar við sat.

Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð í þessum borgarstjórnarkosningum, Hanna Birna fór frá vödlum sem borgarstjóri og Jón Ganrr tók við á grundvelli slagorðsins: “Við gerum allt fyrir alla – og alls konar fyrir aumingja”. Síðan hafa vinstri flokkar verið við völd, nú Samfylking, Björt framtíð, VG og Píratar. Fjármál borgarinnar eru í rúst og stjórnkerfið allt í uppnámi. Við þær aðstæður er kjósendum boðið upp á sama mynstur í landsstjórninni.

Herbragð Sjálfstæðisflokksins árið 2010, sem gekk út á að sýna Hönnu Birnu eina, misheppnaðist algerlega. Nú er flokkurinn að falla í sömu gryfju með því að tefla Bjarna einum fram sem “sterkum leiðtoga”. Gárungarnir segja að einn af kostum hans sé sá að hann sé ekki eins spilltur og Sigmundur Davíð. Það er þá hrós í lagi!

Fleiri flokkar reyna að tefla formanni sínum einum fram og fela “óhreinu börnin”. Það á við um Vinstri græna sem hampa Katrínu Jakobsdóttur með slagorðinu “hverjum treystir þú?”. Svo er sýnt sakleysislegt andlit hennar, enda ráð fyrir því gert að allir séu búnir að gleyma því að hún átti sæti í vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms frá árinu 2009 til 2013. Þess er vandlega gætt í auglýsingum VG að hvergi sjáist í Steingrím J. Sigfússon og Svandísi Svavarsdóttur, lögbrjót, en hún hlaut dóma fyrir valdníðslu sem ráðherra umhverfismála. Hún var sakfelld bæði í undirrétti og Hæstarétti Íslands. Sat samt áfram í vinstri stjórninni út kjörtímabilið eins og ekkert hefði í skorist.

Þegar betur er að gáð, getur Dagfari ekki annað en skilið áróðursmeistara Valhallar að vilja ekki tefla fram öðrum frambjóðendum en formanninum. Margir af öðrum frambjóðendum flokksins í mögulegum þingsætum eru ekki þannig að líklegt sé að kynning á þeim og auglýsingar afli flokknum margra atkvæða. Dæmi um það eru Ásmundur Friðriksson, Sigríður Andersen, Óli Björn Kárason, Birgir Ármannsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir og Brynjar Níelsson svo einhverjir séu nefndir. Þá getur það varla talist flokknum til framdráttar að auglýsa Samfylkingarmanninn sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eða Framsóknarmanninn sem leiðir listann í Norð-vesturkjördæmi.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hlýtur þó að vera verulega ósáttur við að vera ekki hampað í kosningabaráttunni enda er hann sá ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hefur staðið sig best. Hann hefur hvorki hrökklast frá völdum, komið sér í fjármálasukk né fallið í prófkjöri. Margt bendir til þess að undir hans forystu í Norð-austurkjördæmi bæti Sjálfstæðisflokkurinn við sig fylgi og þingmanni á meðan flokkurinn tapar í öðrum kjördæmum.