Sjálfstæðisflokkurinn bar sigurorð af skoðanakönnunum. - annað ekki.

Hálfum mánuði fyrir kosningarnar stefndi í mjög slæma niðurstöðu hjá Sjálfstæðisflokki. Jafnvel hinni verstu í sögu flokksins. Horfur voru á að flokkurinn tapaði fylgi og jafnvel 2 þingmönnum. Stemning var lítil meðal flokksmanna, m.a. vegna frekar óspennandi framboðslista, skorts á frambærilegum konum og þess skugga sem hvíldi yfir flokknum vegna ýmisst misgerða eða varndræðagangs þriggja ráðherra flokksins, Hönnu Birnu, Illuga og Ragnheiðar Elínar. Þá var fólki í fersku minni að formaður og varaformaður flokksins komu við sögu Tortólamála í Panamaskjölum án þess að skýra mál sín til fullnustu. 

En þá stigu Píratar fram og færðu stjórnarflokkunum vopn í hendur. Tilboð þeirra til hinna flokkanna um hræðslubandalag fyrir kosningar var andvana fætt en reyndist vera það sem ríkisstjórnarflokkarnir þurftu til að magna upp stemningu í liði sínu. Nú var hægt að tala um hættu á vinstri stjórn undir forystu Pírata. Mikill hræðsluáróður fór af stað og vitanlega vildu kjósendur ekki fá Birgittu og Smára til þess að stjórna landinu.

Hræðsluáróður Sjálfsæðisflokks og Framsóknar skilaði sér en þó einkum til Sjálfstæðisflokksins vegna þess að kjósendur gerðu sér grein fyrir því að Framsókn er klofin í herðar niður og ekki stjórntæk sem stendur. Önnur mál féllu í skuggann og Sjálfstæðisflokkurinn slapp með skrekkinn.

Niðurstaðan varð sú að í stað þess að tapa fylgi, eins og skoðanakannanir gáfu til kynna, bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig 2,3% frá síðustu kosningum, fékk 29% og tveimur þingmönnum meira en vorið 2013. Formaður flokksins hefur reynt að túlka þessa niðurstöðu sem sigur og að Sjálfsæðisflokkurinn væri sigurvegari kosninganna. Það er athyglisverð greining í ljósi þeirrar staðreyndar að Viðreisn bætti við sig 10,5% fylgi og 7 þingmönnum (nýr flokkur á þingi), Píratar bættu einnig við sig 7 þingmönnum, VG bætti við sig 3 þingmönnum en Sjálfstæðisflokkurinn einungis 2. 

Í sögulegu samhengi er 29% fylgi Sjálfstæðisflokksins fjórða lakasta útkoma flokksins frá stofnun. Minnsta fylgi hans var í kosningunum 2009 þegar flokkurinn fékk einungis 23,7% greiddra atkvæða, þá 26,7% árið 2013, árið 1987 var fylgi flokksins 27,2% eftir að Albert Guðmundsson, einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins, klauf sig frá flokknum nokkrum vikum fyrir kjördag og svo 29% fylgi flokksins núna. Í þremur af þessum fjórum kosningum hefur Bjarni Benediktsson, yngri, verið formaður Sjálfstæðisflokksins.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins var á árum áður yfirleitt á bilinu 35% til 40%. Fór hæst í 42% vorið 1974 í formannstíð Geirs Hallgrímssonar og var ennþá mikið árið 2007 þegar Geir Haarde leiddi flokkin og náði 37% fylgi sem var um 3% aukning frá árinu 2003 þegar Davíð Oddsson stýrði flokknum í sínum síðustu kosningum.

Í ljósi sögulegra staðreynda er 29% fylgi því ekkert sérstakur árangur hjá Sjálfstæðisflokknum og alls enginn sigur.