Sjálfstæðisflokkurinn á sér viðreisnar von ef hann snýr aftur til upphafsins

Margur Sjálfstæðismaðurinn hefur tekið út þjáningar undanfarna tvo til þrjá áratugi vegna hins litla og sífellt minnkandi fylgis flokksins í landsmálunum og ekki síður í höfuðborginni. Telja margir gamalgrónir Sjálfstæðismenn að flokkurinn hafi glatað sjálfum sér og gleymt uppruna sínum. Er þá af sem áður var þegar Sjálfstæðisflokkurinn var kjölfestan og hryggjarstykkið ekki aðeins í stjórnmálunum heldur þjóðfélaginu öllu. 

Margir vilja kenna nýfrjálshyggjudekri Eimreiðarhópsins og helstu forkólfa Sjálfstæðisflokksins eftir 1990 um. Stefnu sem Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (HHG) hefur verið hvað iðnastur að boða og keyra fram í bland við einangrunarhyggju, afturhaldssemi og harða hagsmunagæslu í þágu flokkseigendanna.

Í ljósi þessa er sérlega athyglisvert að lesa skrif Björns Jóns Bragasonar lögfræðings og sagnfræðings á bls. 11 í Morgunblaðinu á mánudag. Björn Jón er Sjálfstæðismaður, hefur verið í framboði til borgarstjórnar fyrir flokkinn og ef marka má skrif hans er hann sannarlega af gamla skólanum og lítt hrifinn af nýfrjálshyggjudekrinu.

Björn Jón segir frá ferð sinni til Þýskalands og heimsókn til Kristilegra Demókrata þar, CDU, sem er flokkur Angelu Merkel. Þar fékk hann skýra útlistun á því hvers vegna gengi Angelu Merkel og flokksins er svo gott sem raun ber vitni í Þýskalandi og honum finnst hann heyra lýsingu á „gamla“ Sjálfstæðisflokknum„Útskýringar starfsmanna CDU á stefnu flokksins hefðu allt eins getað verið þýskar þýðingar á ræðum Jóhanns Hafstein eða Bjarna Benediktssonar eldri.“

Björn Jón heldur svo áfram: „Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að öðlast aftur fyrri stöðu sem 40% flokkur er nauðsynlegt að líta til þeirra grundvallaratriða sem hér eru nefnd. Flokkurinn hefur fyrir löngu glatað öllum tengslum við verkalýðshreyfinguna og fátt verið gert til að bæta rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“

Greininni lýkur Björn Jón svona: „Sjálfstæðisflokkurinn þarf að leita upprunans og stuðla að samfélagi valddreifingar.“

Það skyldi þó ekki vera að þessi litla grein boði vatnaskil í stefnu og viðhorfum Sjálfstæðisflokksins og ný hugmyndafræði taki við eftir gjaldþrot trúboðs Dr. Hannesar Hólmsteins? 

Víst er að greinin er í takti við það sem margur almennur flokksmaðurinn hefur talað og hugsað á undanförnum árum.

Þrátt fyrir allt er enþá eftir í flokknum fjölmargt víðsýnt fólk sem þorir að horfa út fyrir túngarðin og hræðist ekki erlendar strauma og stefnur.

Rtá