Sigurður ingi fær feitasta og besta bitann.

Það hefur löngum verið samkvæmisleikur á Íslandi að vega og meta hversu þungvæg ráðuneytin séu og hvort meiri eða minni virðing fylgi því að vera ráðherra hér eða þar. Enginn vafi er að mesta virðingin hefur þótt fylgja forsætisráðuneytinu. Það má kalla eðlilegt.

 

Eitthvað virðast hin ráðuneytin vera breytileg, hvað virðinguna varðar, frá einum tíma til annars. Löngum hefur utanríkisráðuneytið þótt vera næst í röðinni á eftir forsætisráðuneytinu. En kannski hefur það breyst? Telja má þó víst að á alþjóðavettvangi hafi það ekki breyst. Þar er það sannarlega nr. 2.


Nú telja menn saman hve feita bita flokkarnir hafi fengið hver í sinn hlut við skiptingu ráðherraembættanna (eins og það sé einhver hlutavelta) og telja einhverjir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið bestu bitana. Sannarlega má deila um það.

 

Formaðurinn, Bjarni, fer í fjármálaráðuneytið þar sem hver stjórnmálamaðurinn eftir annan hefur í gegnum tíðina grafist undir bunkum af skýrslum og fjárlagatillögum. Menn reyna að ímynda sér að fjármálaráðherrann sé valdamikill, en það er hinn mesti misskilningur. Efnahagsstefnan er að mestu ákveðin í forsætisráðuneytinu og aðgangsharðir fagráðherra fara sínu fram þannig að fjármálaráðherrann má hafa sig allan við að vera aðgangsharðari en hinir.

 

Guðlaugur Þór heldur áfram að baða sig í sviðsljósi alþjóðastjórnmálanna og er líklega eini ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem situr í einhverju gæðastarfi.

 

Hjá Vinstri grænum fer Svandís í hið klassíska sjálfsvígs – ráðuneyti. Heilbrigðismálin hafa oft verið endastöð þeirra stjórnmálamanna sem þar hafa setið. Nema hún beri gæfu til að vera eins og Kristján Þór, svo aðgerðarlaus að enginn taki eftir henni þar. Varla, en hún hefur harðan skráp eftir að fá á sig dóma bæði héraðsdóms og Hæstaréttar fyrir embættisafglöp sem umhverfisráðherra, svo kannski hún lifi þetta af líka.

 

Þá er það soðbollinn. Framsóknarflokkurinn hefur einstakt lag á að fljóta meðan aðrir sökkva. Alltaf ofaná í hvaða ölduróti sem er. Ásmundur Einar fer í þægilegasta ráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, og mun vafalaust eiga þar góða daga. 

 

Lilja í menntamálin, þar á hún færi á að sýna hvað í henni býr, en þá er það rúsínan - eða kannski öllu heldur gimsteinninn - í pylsuendanum. Sigurður Ingi verður samgönguráðherra.


Rétt er að rifja upp að ríkisstjórnin boðar gríðarmikla uppbyggingu í innviðum  -  lesist:  vegaframkvæmdir fyrir tugi ef ekki hundruð milljarða. Ekki verður það uppbygging í orkuframleiðslu. Miðað við skipan í embætti umhverfisráðherra.


Sigurður Ingi fær hér gullið tækifæri, jafnvel hvítagulls húðað, til að láta að sér kveða svo um munar við að leysa úr vanda landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Líka með því að láta leggja nýja vegi, grafa ný göng, smíða nýjan Herjólf, stækka Landeyjahöfn, smíða nýja Breiðafjarðarferju, laga flugvelli hér og þar. 

 

Hvort sem kjörtímabilið verður í styttra lagi eða í fullri fjögurra ára lengd getur Sigurður Ingi staðið upp fyrir næstu kosningabaráttu og sagt sigri hrósandi: Sjáið. Allt þetta hef ég fært yður. Og Framsókn vinnur stórsigur í næstu kosningum.

Rtá.