Sigur ragnars mun litlu breyta

Þeir sem vonast eftir því að nýr formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, muni valda miklu umróti á vinnumarkaðnum og koma fram breytingum, eiga eftir að verða fyrir vonbrigðum.

Þrátt fyrir sigur yfir fráfarandi formanni er umboð Ragnars afar veikt og staða hans sem formanns erfið.

Félagar í VR eru 33,300 en einungis 17% þeirra neyttu atkvæðisréttar. Nýkjörinn formaður hlaut 3,480 atkvæði þannig að á bak við hann eru einungis 10% félaga í VR. Þannig kusu 9 af hverjum 10 félagsmönnum hann EKKI.

Það sem verra er fyrir Ragnar Þór er sú staðreynd að hann hefur stjórn VR ekki á bak við sig. Dagfari þekkir til í stjórn VR. Af 15stjórnarmönnum eru einir 10 sem styðja Ragnar alls ekki og hreinlega treysta honum ekki.

Því mun nýjum formanni reynast þungt að koma málum gegnum stjórnina.
Formaðurinn einn kemur ekki róttækum breytingum á nema stjórn standi á bak við hann. Ragnar mun eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum á næstunni þar sem hann mun fjalla um afnám verðtryggingar, lækkun vaxta, eflingu velferðarkerfisins og önnur viðfangsefni sem eru ekki á verksviði formanna launþegafélaga.

Ragnar Þór verður að horfast í augu við það að ekki var verið að kjósa hann á þing eða í ríkisstjórn eða skipa hann seðlabankastjóra. Hann er að taka við formennsku í VR þar sem mikill meirihluti 15 manna stjórnar mun ekki fylgja honum að málum.

Það skortir tilfinnanlega stöðugleika í forystu VR. Árið 2009 var Gunnar Páll formaður, þá Kristinn, svo Stefán Einar, Ólafía síðustu fjögur árin og nú Ragnar Þór. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa 5 formenn á 8 árum.
Því fylgir glundroði.

Lendi Ragnar Þór í minnihluta innan stjórnar VR, mun honum ekkert verða ágengt við að koma á breytingum. Þá verða stór orð hans marklaust snakk og þá er eins víst að formannsferill hans verði stuttur; ekki lengri en 2 ár.

Gylfi Arnbjörnsson og félagar í forystu ASÍ munu trúlega líta á þessi óvæntu úrslit hjá VR sem viðvörun og vera vel á verði gagnvart gagnrýnendum sínum.

Kosning Ragnars Þórs mun trúlega ekki hafa önnur teljandi áhrif.