Sigur bernie forspá íslands fyrir 2017?

Doktor Herdís Þorgeirsdóttir lögmaður segir um þá staðreynd að Bernie Sanders hafi í raun náð jafntefli í forvali demókrata í forsetakosningum í Iowa gegn Hillary Clinton að unga fólkið í Bandaríkjunum sé á barmi örvæntingar eftir langt og samfellt skeið. Þetta kemur fram í nýjum bloggpistli Herdísar á herdis.is. Unga fólkið greiði Bernie atkvæði sín  vegna ákalls um breytingar í þeim anda sem hann hefur boðað. Greining Herdísar veltir upp spurningum um vilja unga fólksins hér og þróun íslensks samfélags. Jafnvel hvort afrek Bernies kann að verða forspá um byltingu kerfisins hér á landi að loknum þingkosningum næsta ár, þar sem ráðist verði gegn spillingu.

Herdís er með doktorspróf frá lagadeild Háskólans í Lundi og hefur lengi rannsakað tengsl valda, fjölmiðla og kvenréttinda. Hún vekur athygli á að Bernie Sanders hafði enga pólitíska maskínu á bak við sig þegar hann kynnti framboð sitt fyrir nokkrum mánuðum, enga peninga og fáir vissu nokkuð um hann eða hvað hann stóð fyrir.

„Hann fór gegn stærstu kosningamaskínu Bandaríkjanna, Clintonveldinu sem byggir á gífurlegu framlagi stórfyrirtækja. Árangur Sanders sýnir að unga kynslóðin í Bandaríkjunum er örvæntingarfull.“

Herdís segir illa komið fyrir Bandaríkjunum sem áður hafi verið vagga lýðræðis og nútíma stjórnskipunar. Nú séu BNA komin á yztu nöf þar sem stórfyrirtæki í krafti ógnar-fjármagns einoki fyrirkomulagið sem eigi að tryggja lýðræðislega stjórnarhætti, virka aðgreiningu ríkisvalds, skoðanafrelsi og rétt manna til að leita lífshamingjunnar.

„Bilið milli ríkra og fátækra er orðið slíkt að það er ekki lengur hægt að tala um tækifæri fólks til að vinna sig upp úr engu. Málflutningur Sanders um að ná landinu úr höndum auðkýfingastéttar náði eyrum fólksins.“

Herdís segir að fjármálaöflin ráði pólitík og fjölmiðlum þar vestra.

„Sanders fór gegn spilltum fjármálaöflum sem eru í nánu bandalagi við pólitísk öfl og stjórnvöld sem hafa verið við lýði auk þess sem þau ráða fjölmiðlaveldinu sem mótar umræðuna og reynir að grafa undan öllum þeim sem ögra því. Hann vann því rokkandi sigur í Iowa fyrir tilstuðlan ungs fólks sem hefur náð botninum í tiltrú á kerfi sem getur ekki gengið lengur. Kjósendur Sanders vilja umbylta spilltu pólitísku kerfi sem byggir á bandalagi við fjármálaöfl. Eins og hann segir sjálfur voru stórir fjölmiðlar gerðir út til að reyna að koma í veg fyrir að þessi árangur næðist.“

Um femínisma og þá kröfu að kona verði forseti, segir doktor Herdís: „Auðvitað er mikilvægt að halda áfram að berjast fyrir réttindum kvenna og minnihlutahópa en það verður ekki gert með því að veifa fánum feminsima og fjölhyggju heldur með því að brjóta niður kerfi oligarka – stórfyrirtækja, samþjöppun valds í viðskiptalífi, pólitík og fjölmiðlum. Sú samþjöppun valds hefur átt sér stað út um allan heim, allt frá Rússlandi Pútíns yfir Atlantsála til Bandaríka Norður-Ameríku og Suður-Ameríku en þar hefur hæstiréttur Brasilíu nýlega sagt þessum öflum til syndanna og lýst því yfir að það gangi gegn stjórnarskrá landsins að stórfyrirtæki ráði því hver komist til valda í lýðræðisríki. Það eru borgarar landsins sem eiga að kjósa forystu en ekki fjármálaöflin. Það er ekki verið að tala um að þeir sem eigi meira undir sér geti ekki haft áhrif en staðan er orðin sú í nútímanum að nokkrir tugir manna eiga orðið allt og ráða öllu – glóbalt. Fjármálaöflin einoka pólitíkina og fjölmiðlaumræðuna, móta almenningsálitið og ráða því hverjir komast til valda, forheimska og afvegaleiða kjósendur í krafti fjármagns. Nú segir ungt fólk í Bandaríkjunum hingað og ekki lengra.

Fólk er að rísa upp gegn kerfislægri spillingu og ójöfnuði sem er orðinn slíkur í heiminum að 62 aðilar eiga meir en helmingur mannkyns. Brot úr einu prósenti á allt og ræður öllu.“

Sigrar Bernie Sanders hafa hér inanlands vakið upp spurningar um aðra ögurstund, hvort lýðræðishalli og samþjöppun auðs t.d. í banka- og útgerðargeiranum sé nú orðið slíkt mein að peningar og völd muni ekki lengur megna að tryggja sterkustu gerendum í fyrirtækja-, stjórnmála- og athafnalífi áhrif. Á kostnað almennings eftir því sem fram kemur í fylgiskönnunum. Þá hefur reiði ungs fólks farið vaxandi, enda erfitt að koma yfir sig húsnæði. Menntabrautin er sumpart vörðuð fjárhagslegu egggrýti og enn er því haldið fram að án tenginga, klíku og þátttöku í hagsmunahópum sé erfiðara en ella að fá tækifæri. Tengsl tekin fram yfir verðleika.

Ef staða Pírata er skoðuð hér á landi virðist sá málflutningur þeirra að ráðast í róttækar breytingar á kerfinu sumpart tóna saman við málflutning Bernie Sanders. Píratar og Bernie eiga það líka sameiginlegt að vera dvergafl. Hvorki Píratar né Bernie njóta vart nokkurrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu, enda Píratar aðeins með 3 þingmenn. Maskína valdaflokkanna hér á landi, mikil ítök í fjölmiðlum og fjármálavald sem fram til þessa hefur nánast ráðið því hver fær vinnu og við hvað kann að hiksta verulega í kosningum til Alþingis árið 2017 hér á landi.

Svipuð þróun er að eiga sér stað víða um heim, að borgarar rísi gegn áframhaldandi ójöfnuði og vaxandi lýðræðishalla. Þessar breytingar kalla sumpart á aukna pólaríseringu. Skarpari skil eru líkleg milli hægri og vinstri. Þeir sem keppa um miðjuna í stjórnmálum gætu lent í vanda – eins og fylgi Samfylkingar og Bjartar framtíðar er e.t.v. rakið dæmi um.

Pistill: Björn Þorláksson