Sigríður andersen fer. slagur hafinn um ráðherrastólinn.

Eftir að fram kom opinberlega að embættismenn í dómsmálaráðuneytinu hefðu varað Sigríði Andersen við því að breyta ráðgjöf hæfisnefndar um skipan dómara við Landsrétt, er endanlega útilokað að hún geti haldið áfram sem dómsmálaráðherra.

Í öllum nágrannaríkjum okkar væri hún löngu búin að segja af sér embætti. Enda er hvergi talið boðlegt að dómsmálaráðherra haldi völdum eftir að æðsti dómstóll landsins hefur dæmt ráðherra sekan.

Sigríður Andersen hefur svarað gagnrýni með hroka og útúrsnúningum. Furðu vekur að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi ekki gripið í taumana og sett hana af.
Forsætisráðherra er einnig farinn að stórskaðast vegna málsins.

Innan Sjálfstæðisflokksins er orðinn mikill órói vegna Sigríðar enda þykir mál hennar minna óþægilega mikið á hrakfarir Hönnu Birnu á sínum tíma. Mál hennar endaði með afsögn og niðurlægingu.

Heimildir innan þingflokks herma að hafið sé kapphlaup um ráðherrastólinn sem senn mun losna.

Birgir Ármannsson og Brynjar Níelsson eru löglærðir og vilja báðir taka við embættinu. Það er þó talin ósennileg niðurstaða.

Helst þyrfti að fá konu í stað Sigríðar en það yrði þá að leita hennar utan þingflokksins sem er einnig frekar ólíklegt.

Líklegasta niðurstaðan er sú að Þórdís Kolbrún verði færð yfir í dómsmálin og karlmaður taki við af henni í ráðuneyti iðnaðar og ferðamála. Slagurinn um það mun þá standa milli Jóns Gunnarssonar og Páls Magnússonar.

Enn mun líða nokkur tími þar til tekst að koma lögbrjótnum Sigríði Andersen út úr ríkisstjórninni. Á meðan eykst skaðinn vegna málsins.

Rtá.