Sigmundur Davíð fékk áfall: „Maður er svona rétt að komast af afneitunarstiginu“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, er mikill aðdáandi útvarpsmannsins Sigurðar Hlöðverssonar, eða Sigga Hlö. Sigmundur var því að vonum svekktur þegar hann komst að því að Siggi ætlaði að hætta með þátt sinn, Veistu hver ég var?

Fréttablaðið ræðir við Sigmund og Sigurð í dag.

Síðasti þáttur Sigurðar fór í loftið síðastliðinn laugardag og sendi Sigmundur honum hjartnæma kveðju á meðan á útsendingu stóð.

„Þetta var auðvitað ákveðið áfall þegar tilkynnt var að hann væri að hætta. Maður er svona rétt að komast af afneitunarstiginu,“ segir Sigmundur Davíð en hann sendi Sigga þrjár ferskeytlur með kveðju og hvatningu til þess að taka þráðinn upp að nýju síðar.

Sigurður er meðvitaður um aðdáun Sigmundar Davíðs og í Fréttablaðinu er rifjað upp minnisstætt atvik árið 2013 þegar Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson voru að mynda ríkisstjórn í sumarbústað. Hringdi Siggi í þá og þáði Bjarni boð um óskalag með því að biðja um Wild Boys með Duran Duran. Var ríkisstjórnin Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks löngum kennd við þetta frábæra lag.

Það er augljóst að Sigmundur mun sakna þáttanna.

„Þetta er, var, skemmtilegur þáttur. Tilbreyting frá amstri dagsins á laugardögum. Skemmtilegt kæruleysi og auðvitað góð tónlist.“

Sigmundur vonar að Sigga snúist hugur og hann setjist aftur í hljóðverið á laugardögum.

„Ég er nú enn að vona að hann komi aftur. Ég veit ekki hvort ég á að hefja svona undirskriftasöfnun eins og er í tísku núna en ég bind allavegana vonir við að einn daginn þá verði hann kallaður til baka til að sinna skyldum sínum fyrir þjóðina.“

Nánar í Fréttablaðinu í dag.