Satan grætur – slógan stjórnvalda?

Það er af sem áður var þegar kraftmiklar fyrirsagnir skóku íslenskt samfélag og keppst var innan auglýsingaheimsins um að ögra lesendum þannig að eftir var tekið.

Tökum sem dæmi þessa auglýsingu sem birtist í blaði á Akureyri árið 1906, fyrir 110 árum:

„Satan grætur – þegar hann heyrir hvað Jósep Jónsson selur ódýrar eftirfarandi vörutegundir sem hann nú hefir á boðstólum í Strandgötu.“

Þessi auglýsing er ekki bara hnyttin, hún er einnig áhugaverð heimild um hlutfall verðalagningar eftir vöruflokkum. Smjörlíki er rándýrt á þessum tíma. Kannski leiddi okrið til þess að Akureyringar stofnuðu eigin smjörlíkisgerð síðar. Smjörlíkðstykkið kostaði allt að 45 aurar pundið en steinolía kostaði á sama tíma 9-10 ára – munurinn er 400 til 450%. Eitthvað annað en í dag og þó er olía og bensín á spottprís miðað við oft áður.

Þá er gaman að sjá að kandís, döðlur og fíkjur eru á ágætis verði á þessum tíma líka sem og fleiri munaðarvörur sem þarna eru taldar upp.

Hvernig túlka ber það við grát Satans er önnur spurning. A.m.k. tókst Jósep að grípa athygli lesendanna svo eftirminnilega með slagorði sínu, að 110 árum síðar  deilir fólk þessari auglýsingu á félagsmiðlum og hefur gaman af.

Þá vantar kannski Jósep í stjórnarráðið, næst þegar 2,3 milljónir króna verða teknar af fé okkar skattborgara til að auglýsa afrek ríkisstjórnarinnar. Vantar kannski Jósep í fyrirsagnirnar, þótt ekki væri nema til að greiðendur auglýsinganna gætu  hlegið pínulítið, þökk fyndni Jóseps – hlegið næst þegar afrek ríkisstjórnarinnar verða tíunduð og auglýst.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í sjónvarpsþættinum Kvikunni sem frumsýndur var á Hringbraut í gærkvöld, mánudaginn 01. debrúar.)