Samtök atvinnulífsins völdu fagmann

Halldór Benjamín Þorbergsson var valinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í vikunni. Halldór er mikill fagmaður sem gott orð fer af.
Síðustu sjö árin hefur hann gegnt stöðu framkvæmdastjóra þróunarmála hjá Icelandair Group með góðum árangri. Flestir telja að Halldór sé samtökunum happafengur.

Ríkur vilji var hjá flestum í forystu SA að velja mann með reynslu úr viðskiptalífinu til starfsins og forðast að ráða í þetta mikilvæga starf fallinn stjórnmálamann úr hópi þingmanna eða ráðherra. Nóg er framboð af þeim!

Ekki voru þó allir á þeirri skoðun en vissir aðilar úr sjávarútvegi og samvinnuverslun munu hafa sótt fast að velja til starfsins fallinn þingmann sem á engan feril að baki í atvinnulífinu. Þeim varð ekki ágengt að þessu sinni þó fast hafi verið sótt.

Dagfari spáir Halldóri Benjamín góðu gengi á nýjum vettvangi.