Samkeppniseftirlitið hamlar framþróun í viðskiptum

Markaðurinn sem fylgir FB fjallar um sleifarlag Samkeppniseftirlitsins(SE) í ritstjórnarpistli á baksíðu sl. miðvikudag.

Þar er fjallað um þann seinagang sem er á afgreiðslu SE á kaupum Haga á Olís en nú er liðið rúmt ár frá því tilkynnt var um kaupin eftir undirritun samninga. Í pistlinum segir að tólf mánuðir virðist ekki hafa dugað eftirlitinu til að gera upp hug sinn því málið er ennþá óafgreitt.

Þessi seinagangur þykir óviðunandi og beinlínis hneykslanlegur af hálfu þessarar opinberu stofnunar og í engu samræmi við það sem tíðkast í siðuðum ríkjum. Um þetta segir blaðið:

“Í því samhengi má nefna að það tók bresk samkeppnisyfirvöld um níu mánuði að veita samruna Tesco og Booker blessun sína. Þó er þar um að ræða samruna stærstu smásölukeðju Bretlands annars vegar og stærsta heildsalans hins vegar. Kaupverðið á Booker var 600 hundruð milljarðar króna og markaðsvirði samanlagðs félags um 3.200 milljarðar króna. Flækjustigið var eftir því en einungis Tesco rekur um 7.000 verslanir.”

Svo var þess getið til samanburðar að Hagar reki 50 verslanir og Olís reki nokkra tugi bensínstöðva. Markaðsvirði Haga er 47 milljarðar króna, eða 1.5% af markaðsvirði Tesco!

Eftirlitið á Íslandi virðist þurfa meiri tíma í þetta dvergverkefni en Bretar í sitt risaverkefni. Það er vitanlega enga veginn boðlegt.

Innlend verslun er krafin um hagræðingu til að geta lækkað vöruverð en svo gerist það að opinber stofnun hamlar jákvæðri framvindu með sleifarlagi.

Í nýlegri ræðu um þessi mál líkti Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, vinnubrögðum SE við það sem tíðkaðist í Austur-Þýskalandi á tímum kalda stríðsins. Þá er ástandið orðið grafalvarlegt og full ástæða til að staldra við.

Það er kominn tími til að hrista upp í stöðnuðu og óskilvirku eftirlitskerfi 
hér á landi.

Rtá.