Samkeppniseftirlitið er án tengsla við íslenskan raunveruleika

Sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SE) að hafna samruna Haga og Lyfju sýnir að þessi stofnun lifir sínu sjálfstæða lífi í fílabeinsturni valdhrokans. Meginrök SE fyrir þessari einkennilegu ákvörðun eru þau að samruni gæti leitt til óæskilegrar samþjöppunar á snyrtivöru-og hreinlætismarkaði.

Eru menn ekki að grínast? Ef svo, þá er það grátt gaman.

Meginstarfsemi Lyfju snýst um að selja lyf, eins og nafnið bendir til. Hagar selja ekki lyf. Snyrtivörusala er aukabúgrein og ætti ekki að ráða neinu um ákvörðun SE. Stofnunin ætti þá að velta fyrir sér öllum snyrtivöruviðskiptunum sem fram fara í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli á vegum ríkisfyrirtækisins Ísavía. Þar þurfa neytendur ekki að greiða VSK af innkaupum sínum sem skekkir samkeppnina við innlenda verslun gríðarlega. Var Costco svo ekki að koma inn á markaðinn með öllu sínu afli, þar á meðal í sölu snyrtivara?

Þessi vanhugsaða ákvörðun SE er enn eitt dæmið um það að menn virðast ekki ennþá skilja að við Íslendingar erum örþjóð á örmarkaði. Við erum 340.000 manns en opinberir aðilar virðast halda að hér búi milljónaþjóð.

Það er ekkert vit í því að yfirvöld komi í veg fyrir stærðarhagræðingu í rekstri fyrirtækja á þessum örmarkaði. Það eru ýmsar leiðir færar til að halda uppi verðlagseftirliti og neytendavernd þó fyrirtæki fái ráðrúm til að hagræða, stækka og eflast því varla getur það verið markmið hins opinbera að íslensk verslun verði svo veik að erlendir risar geti komið hér inn á markaðinn og hrifsað til sín stóran hluta viðskipta án þess og borga skatta á Íslandi eins og ætla má að verði reyndin með Costco. Hefur t.d. einhver orðið var við tekjuskattsgreiðslur frá Bauhaus á þeim fjórum árum sem fyrirtækið hefur starfað hér á landi?

Vinnubrögð og stjórnsýsla SE eru orðin að mjög alvarlegu samfélagsmeini. Margar ákvarðanir stofnunarinnar hafa verið mjög umdeildar og þykja alls ekki taka mið af þeim íslenska veruleika að hér um að ræða 340.000 manna markað en ekki milljóna- eða tugmilljónamarkað. Það er ekki hægt að ætlast til þess að hér séu allt of margir að bítast um það litla sem er til skipta á markaði. Óhjákvæmilegt er að yfirvöld komi ekki í veg fyrir eðlilegar hagræðingaraðgerðir eins og samrunar í verslun og þjónustu eru. Íslendingar verða að horfast í augu við þann veruleika að hér býr smáþjóð sem gerir viðskipti á örmarkaði. Ef yfirvöld ná að hamla gegn hagræðingu, þá endar flest í höndunum á erlendum auðhringum. Það vilja Íslendingar ekki.

Fyrir nokkrum árum kom út skýrsla um íslenskt atvinnulíf kennd við McKinsey sem er virt erlent ráðgjafafyrirtæki. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu var að framleiðni á Íslandi væri allt of lítil ekki síst vegna þess að rekstrareiningar væru of smáar og veikburða. Bent var á að allt of margir væru að fást við bankaviðskipti, vátryggingar, matvörusölu, eldsneytissölu og alls konar iðnaðarframleiðslu. Þá fékk margháttaður ríkisrekstur falleinkunn í skýrslunni. Niðurstaðan var sú að sett var á fót risanefnd með ráðherrum, embættismönnum og helstu forystumönnum vinnumarkaðarins til að tryggja það að tillögur nefndarinnar um hagræðingu næðu fram að ganga.

Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur komið út úr starfi þessarar nefndar þrátt fyrir margra ára “starf”. Einnig er ljóst að engar umtalsverðar hagræðingaraðgerðir hafa orðið í anda niðurstöðu skýrslu nefndarinnar. Það stafar m.a. af því að SE hefur hamlað gegn hagræðingu og aðilar eru hræddir um að ekki þýði að leggja hagræðingaáform fyrir yfirvöld vegna þeirrar neikvæðni sem ríkjandi er.

Vert er að vekja athygli á því að yfir SE ríkir ráðherraskipuð stjórn sem virðist ekki vera fær um að gegna hlutverki sínu. Stjórnin hlýtur að hafa samþykkt þá ákvörðun að hafna samruna Haga og Lyfju enda er eitt af verkefnum stjórnar SE að samþykkja eða synja meiri háttar ákvörðunum. Orðrétt segir að meðal hlutverka stjórnar SE sé að taka ákvarðanir um meiri háttar máefni: “Meiri háttar efnislegar ákvarðanir eru bornar undir stjórn til samþykktar eða synjunar.” Lyfjumálið hlýtur að teljast “meiri háttar”.

Samkvæmt vef SE eiga þessir sæti í stjórninni, skipaðir þann 1.12.2015 til fjögurra ára: Guðrún Ragnarsdóttir formaður, Eyvindur G. Gunnarsson og Ásta Dís Óladóttir. Guðrún er viðskiptafræðingur og starfar hjá ráðgjafafyrirtæki en hin tvö eru háskólakennarar. Ekki verður séð að stjórnarmenn hafi mikla eða mikilvæga reynslu úr íslensku atvinnulífi. Það er auðvitað ámælisvert að ráðherra hafi ekki skipað neinn í stjórn SE sem er líklegur til að geta fært reynslu og skilning á íslenskum neytendamarkaði að stjórnarborðinu. Því er ekki von á góðu.

Löggjafinn verður að grípa inn í. Mikilvægt er að breyta samkeppnislögum þannig að SE hafi ekki heimildir til að bregða fæti fyrir nauðsynlega hagræðingu í atvinnulífinu. Gera verður þá kröfu til núverandi ríkisstjórnar að hún tryggi lagabreytingar sem færi lagaumhverfi samkeppnismála að þeim veruleika að hér er um 340.000 manna örmarkað að ræða.

Embættismenn í fílabeinsturni valdhrokans eru þegar farnir að valda miklum skaða í samfélagi okkar. Skaða sem á endanum bitnar á almenningi.

 

rtá.