Samfylkingin stingur eyþór af í reykjavík

Ef marka má nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins er Samfylkingin að stinga af í Reykjavík með 30.5% fylgi og 8 borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í 22.4% og fengi einungis 6 borgarfulltrúa kjörna.

 

Rétt er að undirstrika að könnun Fréttablaðsins er lítil vexti saman borið við kannanir Gallups og annarra fagfyrirtækja á þessu sviði. Könnunin var gerð 7. mai og er því alveg ný, tekin eftir að öll framboð eru komin fram í borginni.

 

Gangi þessi könnun eftir fengju einungis sex framboð af sextán menn kjörna í borgarstjórn. Hvorki Framsókn né Flokkur fólksins kæmu að mönnum. Ljóst er að Miðflokkurinn slær Framsókn út af borðinu í höfuðborginni og Flokkur fólksins ásamt smærri framboðum ná sér ekki á strik. Niðurstaða þessarar könnunar er sú að Samfylkingin fengi 30.5% og 8 borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkur færi niður í 22.4% og fengi 6 menn kjörna, VG 10.9% og 3 menn, Viðreisn 8.3% og 2 menn, Píratar 7.5% og 2 menn og loks Miðflokkurinn 7.3% og 2 menn.

 

Samkvæmt þessu hefur Samfylkingin yfirburði og hefur nokkra kosti til myndunar meirihluta. Samfylking getur haldið áfram samstarfinu við VG og Pírata með 13 menn á bak við sig af 23. Þá gæti Samfylking einnig myndað meirihluta með stjórnarandstöðuflokkunum á Alþingi, Viðreisn og Pírötum og hefði þá 12 menn. Alla vega væri Samfylkingin í lykilstöðu.

 

Niðurstaða í líkingu við þessa könnun Fréttablaðsins yrði reiðarslag fyrir Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans, Eyþór Arnalds. Það má alveg velta því fyrir sér hvort hann tæki þá sæti í borgarstjórn eða segði strax af sér leiðtogahlutverkinu. Það kemur í ljós eftir kosningarnar þann 26. mai.

 

Rtá.