Samfylkingin ætlar með miklubrautina í stokk sem hefði átt að gera fyrir 30 árum

Samfylkingin kynnti helstu stefnumál sín fyrir borgarstjórnarkosningarnar nú um helgina. Flokkurinn mun beita sér fyrir borgarlínu og að fara með Miklubrautina í stokk strax. Þetta eru góðar fréttir fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og reyndar alla Íslendinga.

 

Einhver mestu mistök sem gerð hafa verið í Reykjavík á síðustu áratugum varðandi umferðarmál snúast einmitt um Miklubraut í stokk. Í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar börðust embættismenn og sérfræðingar borgarinnar fyrir því að Miklabrautin yrði sett í stokk. Þórður Þorbjarnarson var þá borgarverkfræðingur, mjög framsýnn og öflugur fagmaður. Hann taldi að með því að setja Miklubraut í stokk frá horni Kringlumýrarbrautar og vestur undir Landsspítala mætti tryggja þær mestu samgöngubætur sem völ væri á fyrir borgina. Þórður barðist ötullega fyrir þessu en talaði fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna sem höfðu ekki skýra framtíðarsýn eins og borgarverkfræðingurinn.

 

Davíð Oddsson hafði ekki skilning á þessu. Hann studdi ekki hugmyndina um að fara með Miklubraut í stokk og því varð ekkert af því vegna þess að á áttunda áratug síðustu aldar réði hann því sem hann vildi hjá borginni. Davíð taldi brýnna að reisa monthús eins og Perluna og ráðhús Reykjavíkur úti í tjörn þar sem hann gat lagt hornsteina á fæðingardegi foreldra sinna.

 

Miklabrautin telst vera þjóðvegur í þéttbýli og því þarf samkomulag borgar og ríkis fyrir framkvæmdum við hana vegna skiptingar á kostnaði við verkið. Ætla má að Samfylkingin verði áfram við völd í borginni og Dagur Eggertsson verði áfram borgarstjóri. Þá mun reyna á hvort núverandi ríkisstjórn er tilbúin til samninga um þetta þjóðþrifamál eða hvort hún bregður fæti fyrir framkvæmd hugmyndar um Miklubraut í stokk eins og Davíð Oddsson gerði í borgarstjóratíð sinni.

 

Vonandi næst samstaða um þetta mikilvæga mál og vonandi verður framkvæmdum hraðað sem mest má verða. Með því að setja Miklubraut í stokk tekst að greiða úr helstu umferðarhnútum höfuðborgarsvæðisins sem eru í boði þeirra sem höfðu ekki framsýni til að gangast fyrir þessari framkvæmd á árunum kringum 1990 þegar gott lag var til þess.

 

Það yrði kaldhæðnislegt ef Degi Eggertssyni tækist að bæta fyrir þessar misgjörðir Davíðs Oddssonar frá borgarstjóratíð hans sem stóð yfir frá 1982 til 1991. Helstu afrek Davíðs voru monthúsin tvö. En hann skildi fráveitumálin eftir í ólestri og hafði takmarkaða framtíðarsýn hvað varðar umferðarmál Reykjavíkur.

 

Rtá.