Sævar í hrikalegri stöðu: Örkumla í fimm fermetra herbergi – „Þetta lítur ekki vel út“

„Þetta lítur ekki vel út. Við getum orðað það þannig,“ sagði Sævar Daníel Kolandavelu í Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

Sævar, sem er á fertugsaldri, segist vera að slitna í sundur vegna alvarlegs stoðkerfisvanda. Hann liggur uppi í rúmi á hverjum degi á heimili vina sinna í Bryggjuhverfinu sem skotið hafa skjólshúsi yfir hann, en átta ára dóttir þeirra gekk úr rúmi fyrir hann. Herbergið er fimm fermetrar.

Sjá einnig: „Heilbrigðiskerfið vill meina að ég sé að drepast úr frekju“

Sævar slasaðist árið 2016 þegar eitthvað slitnaði í hálsinum á honum. Hann getur ekki setið uppréttur lengur en í nokkrar mínútur í senn og hefur lýst því að hann sé fastur í heilbrigðiskerfi sem neitar að tala við hann.

„Ég er eiginlega í stöðugu neyðarástandi,“ segir hann og vill meina að heilbrigðiskerfið hafi brugðist sér. „Ég hef í raun þurft að finna út úr þessu sjálfur. Það eru eiginlega engin úrræði í boði,“ segir hann.

„Þegar ég hóf þess göngu mína inn í lækna- og vísindasamfélagið var ég bara venjulegur borgari sem hafði trú á því að ef eitthvað kæmi fyrir mig þá færi ég bara til læknisins. Það var hugmyndin mín. Og ég bar algjört traust til lækna og hélt að þeir væru svona gúrúar, en svo kemur allt annað á daginn,“ sagði hann meðal annars.

Sævar er ekki kominn með neina niðurstöðu í sín mál og segir að í því felist ákveðið frelsi. Þó segir hann útséð með að hann geti ekki verið í þeirri stöðu sem hann er í núna, en læknisfræðilega sé vel hægt að laga hann. „Þetta er ekkert sérstaklega abstrakt eða erfitt að díla við.“

Þrátt fyrir það hefur Sævar skoðað að þiggja dánaraðstoð. Hann segist vera kominn yfir þá erfiðu hugsun. „Það var auðvitað alveg skelfilegur ótti sem fylgdi því að deyja, að hugsa að nú væri líf manns búið og allt það sem manni langaði að gera. Það er búið að týnast allt af mér. Allir draumar, allar þrár og allar langanir eru búnar að seytla í burtu.“

Viðtalið við Sævar má sjá í Fréttavaktinni hér að neðan.