Ríkisstjórn um áramót - ef ekkert klikkar á lokametrunum

Ef ekkert óvænt kemur upp á síðustu stundu ætti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að taka við völdum eftir nokkra daga.

Formenn þessara flokka hafa ræðst mikið við bæði formlega og óformlega og er talið að þeir hafi náð saman um meginatriði stjórnarsáttmála eftir að allir hafa gefið nokkuð eftir frá ítrustu kröfum.

Frágangur stjórnarmyndunar hefur beðið vegna anna í þinginu sem nú hefur afgreitt öll nauðsynleg mál og er komið í jólaleyfi.

Heimildir Dagfara innan úr Sjálfstæðisflokknum herma að fjölgað verði um eitt ráðuneyti með stofnun ferðamála-og samgönguráðuneytis eins og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar. Ráðherrar verða þá ellefu talsins og því tólf mikilvæg sæti til skiptanna með forseta Alþingis.
Talið er að Sjálfstæðisflokkur fái sex þessara sæta, Viðreisn fjögur og BF tvö.

Sama heimild segir að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra, Kristján Þór Júlíusson forseti Alþingis, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Haraldur Benediktsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir félagsmála-og húsnæðisráðherra.

Björt framtíð fengi væntanlega mennta-og menningarmál í sinn hlut ásamt umhverfisráðuneytinu. Óttar Proppé og Björt Óladóttir yrðu væntanlega ráðherrar þeirra.

Samkvæmt þessu kæmu í hlut Viðreisnar fjármálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, ferðamála- og samgönguráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Ráðherrar Viðreisnar yrðu að líkindum Benedikt Jóhannesson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson og Hanna Katrín Friðriksson.

Gangi þetta eftir, eigum við von á nýrri ríkisstjórn kringum áramótin. Samkvæmt þessu yrði hún skipuð öflugu fólki.