Ríkið komi að kostnaði við textun

Ef breyta á heiminum til batnaðar þarf að hyggja að mörgu og tryggja um leið fé til breytinganna. Sá er e.t.v. lærdómurinn ef marka má misjöfn viðbrögð við þingmannafrumvarpi sem lagt hefur verið fyrir Alþingi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla og varðar textun myndefnis. Með frumvarpinu er mismunum t.d. heyrnarskertra rutt úr vegi til samfélagsþátttöku. Án opinberrar aukafjárveitingar gætu áhrifin þó orðið katastrófísk fyrir rekstur lítilla fjölmiðla og bitnað á framboði þjónustu og fjölbreytni í dagskrárgerð.

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram en nú standa auk Svandísar Svavarsdóttur og Bjarkeyjar Olsen VG, helstu stuðningsmanna lagabreytinganna, þær Katrín Júlíusdóttir og Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu á bak við frumvarpið. Það sem eykur líkur á að frumvarpið gæti orðið að lögum er að nú fylkja nýir meðflutningsmenn sér á bak við lagafrumvarpið úr meirihlutanum, þær Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir. Með öðrum orðum eru allir bakhjarlar lagabreytingarinnar konur og málið þverpólitískt.

Drepur minni fjölmiðla

Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN, hefur látið hafa eftir sér að ef frumvarpið verði að lögum myndi það „slökkva á stöðinni“ eins og Morgunblaðið hafði eftir honum á mánudag vegna mikils kostnaðar sem hlytist vegna textunarinnar. Egill Helgason, starfsmaður Rúv, hefur skrifað í pistli að litlar sjónvarpsstöðvar líkt og Hringbraut, ÍNN og N4 gætu kiknað við þennan aukakostnað. „Þetta er frumvarp sem drepur litla sjónvarpsfjölmiðla nema ríkið reddi fjáveitingu til að standa straum af kostnaði, segir maður sem þekkir vel til rekstrarumhverfis lítilla fjölmiðla í einkaeigu. Annar segir: „Það mætti þrepa þessa hugmynd og byrja þá á RÚV.\"

Skoðanir skiptar í tvö horn

Í greinargerð með frumvarpinu segir að í umsagnarferli þegar frumvarpið var kynnt hagsmunaaðilum hafi átta aðilar sent umsagnir. Þær hafi skiptst nokkuð í tvö horn. Fulltrúar heyrnarskertra og talsmenn mannréttinda telji mikla og sjálfsagða réttarbót felast í málinu. Af hálfu fjölmiðlanefndar og 365-miðla hafi verið bent á kostnað við verkefnið og lögð  til útfærsluatriði sem gætu orðið til þess að gera framkvæmd þess auðveldari og umsvifaminni.

Meðal raka sem nefnd eru með greinargerð frumvarpsins eru að þjóðin sé að eldast, með hærri aldri versni heyrn og enda þótt ýmis læknisfræðileg og tæknileg úrræði gagnist fólki vel til að vinna bug á heyrnardeyfu á efri árum sé við því að búast að fólki sem þurfi á texta að halda til að geta notið sjónvarpssendinga á íslensku muni fara fjölgandi á næstu árum og áratugum „og er full ástæða til að bregðast við því“.

Tvískinnungur umhverfis

Skeptískir viðmælendur Hringbrautar  segja að á okkar tímum geti áskrifendur Stöðvar 2, Vodafone, Símans og Netflix sem dæmi horft á erlent efni ótextað. Þar séu leyfðar bjór og vínauglýsingar. Íslensk tímarit megi ekki auglýsa bjór og vín, í bókahillum verslana séu þó erlend blöð við hliðina þeim íslensku öllum til sýnis. Sumir viðmælenda Hringbrautar spyrja um jöfnuð og réttlæti: „Á þá að banna erlend tímarit, á að banna erlendar stöðvar á Íslandi?“

„Ég myndi gjarn­an vilja gera þetta en þetta myndi bara slökkva á ÍNN. Og ég full­yrði á öll­um litlu stöðvun­um. Ekki nema þá að það myndi fylgja frum­varp­inu að stofnaður yrði sér­stak­ur sjóður sem kostaði þetta. Kostnaður­inn við textun­ina er nefni­lega al­veg gríðarleg­ur,“ seg­ir Ingvi Hrafn Jóns­son, eig­andi sjón­varps­stöðvar­inn­ar ÍNN, í Morgunblaðinu.

N4 úr leik – að óbreyttu

Hilda Jana Gísladóttir hjá sjónvarpsstöðinni N4 fagnar textun sem jafnræðistæki en telur að stöðin sem hún er dagskrárstjóri fyrir hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þýðinga að óbreyttu.

„Í raun má líta á það að texta íslenskt sjónvarpsefni sem aukna dreifingu sjónvarpsefnis, því að með því að texta efnið myndum við á N4 einfaldlega ná til fleiri áhorfenda og væri það okkur auðvitað mikið fagnaðarefni. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef þá má gera ráð fyrir því að stór hópur, eða um 10-15% landsmanna búi við heyrnarskerðingu í einhverju mæli, auk þess sem slík textun gæti komið að góðum notum fyrir erlent fólk sem enn hefur ekki full tök á íslensku talmáli, en kýs að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum,“ segir Hilda Jana og bætir við: „Við á N4 höfum áður kannað kostnað við að texta okkar efni og á þeim tíma sem það var gert, þá komumst við að þeirri niðurstöðu að við réðum því miður ekki fjárhagslega við verkefnið. Bæði þarf að kaupa tækjabúnað og ráða fólk til að sinna verkinu. Verði þetta frumvarp að lögum þá treystum við á að því fylgi fjármagn frá ríkinu, þá myndi alls ekki standa á okkur á N4 – við myndum fagna því og stolt bjóða upp á textað íslenskt sjónvarpsefni.“

Menningin líka undir

Ekki virðist sem búið sé að tryggja opinbera fjárveitingu frá ríkinu til að hjálpa litlum sjónvarpsstöðvum til að kljúfa aukinn kostnað sem virðist óhjákvæmilegur ef allt efni verður textað. Svandís Svavarsdóttir þingmaður, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, segir vegna varnaðarorða forráðamanna lítilla sjónvarpsstöðva að hún vilji auðvitað alls ekki að vegið sé að litlu stöðvunum. „Markmiðið með þessu er fyrst og fremst að bæta aðgengi að umræðu, upplýsingum og samfélagsþátttöku.“

Svandís segir ljóst að ríkissjóður yrði að koma að verkefninu með einhverju móti. Réttlæting þess sé m.a. sú að gefa þurfi myndarlega í að því er varðar nýsköpun og þróun í tungutækni. „Öðrum þræði snýst málið nefnilega líka um að styrkja stöðu íslensks máls,“ segir Svandís, fyrrum ráðherra í Vinstri stjórninni.

Sjálfvirkar aðferðir við textun?

„Textun innlends efnis skiptir heyrnarskerta mjög miklu máli. Í fyrsta lagi þá gæfi textun heyrnarskertum tækifæri til að fylgjast með því sem er að gerast í þjóðfélaginu og þá ekki einungis í fréttum heldur líka i umræðu og menningu,“ segir Hjörtur H. Jónsson, formaður Heyrnarhjálpar í samtali við Hringbraut.

Hann bætir við: „Í því sambandi er t.d. vert að hafa í huga að til þessa hafa heyrnarskertir ekki getað gengið að því vísu að geta horft á íslenskar kvikmyndir, sem oft er ekki hægt að fá með texta.  Ég tel að textun sé mikilvægast einstaka réttindamál heyrnarskertra og trompi þar jafnvel kostnaðarþátttöku í heyrnartækjum.“

Geta má þess að Heyrnarhjálp gaf umsögn um textunarfrumvarpið síðasta vetur þar sem félagið lagði áherslu á að ríkið myndi styðja við innleiðinguna og þá til dæmis með því að styrkja íslenska máltæknistofu til að þróa sjálfvirkar aðferðir við textun.

(Fréttaskýring: Björn Þorláksson.)