Ríka stelpan sem fórnaði lífi sínu

Ýmis empirísk dæmi úr raunveruleikanum sem og ýmsar fræðilegar rannsóknir segja okkur að það þurfi brotið fólk eða siðvillt til að við leggjum ekki líf okkar í hættu ef þess þarf til að bjarga börnum. Við erum langflest sammála um að ekkert sé mikilvægara í lífinu en að tryggja líf og velferð barna um allan heim. Stundum er þessi innbyggða hvöt okkar svo sterk að við fórnum okkar eigin lífi fyrir aðra. Það þykir sjálfsagt þegar um ræðir okkar eigin börn. En stundum berast fréttir af svo andlega ríkum einstaklingum, að þrátt fyrir ungan aldur þeirra hafa þeir náð slíkum þroska að við finnum sjálf fyrir vanmætti og spyrjum nýrra spurninga.

Fyrir nokkrum dögum dó 10 ára gömul stúlka hetjudauða. Hún heitir Kiera Larsen frá Kaliforníu og mun vegna hetjudáðarinnar lifa að eilífu í hugum okkar hinna. Kiera sá kyrrstæðan bíl renna af stað og stefna á tvö ung börn sem voru að leik í innkeyrslu. Kiera var aðeins 10 ára gömul orðin svo rík af manngæsku og ábyrgðartilfinningu að hún hljóp til og tókst að henda börnunum burt frá bílnum. Við björgun barnanna varð hún sjálf fyrir ökutækinu og dó skömmu síðar á spítala vegna áverka sinna.

Sagan af dauða þessarar 10 ára gömlu stúlku, lyftir okkar eigin hugmyndum um lífið og tilveruna. Eitt augnablik læðist að okkur hugsunin, til hvers við fáum að dvelja í heiminum, sum bara örskotsstund. Hetjudauði Kieru litlu er vegvísir til okkar allra um að líf í eigingirni sé dauði. Að fórn til bjargar öðrum sé ávísun á eilíft líf.

Samt mætti segja að ráðandi hugmyndafræði samtímans hvetji nú mjög til sjálfelsku og eigingirni. Til er pólitísk stefna sem skaut rótum á níunda áratug síðustu aldar. Hún kallast nýfrjálshyggja og gengur út frá því að menn séu ekki annað en vörur á markaði, að við séum í raun samsafn af eigingjörnum vélum sem aðhöfumst ekkert án þess að hafa persónulegan ábata af öllum okkar orðum og gjörðum.

Í hvert skipti sem einhver fórnar lífi sínu í því skyni að bjarga öðrum - hrynur kenning nýfrjálshygjunnar. Sem er gott því kenningin er ekki bara hamlandi og fjandsamleg samhygðinni sem öðru fremur gerir lífið e.t.v. þess vert að lifa því. Nýfrjálshyggjan er mannfjandsamleg vegna þess að hún smættar allt það göfugasta í lífinu og hvetur til ágirndar, leiðir jafnvel til fíknar í dauða hluti og innantóm veraldleg stöðutákn. Peningar skapa vissulega velsæld, tækifæri og öryggi umfram það sem skuldugir, blankir og fækir geta ekki notið. En það er erfitt að finna rannsóknir sem sýna fram á að sá sem leggur ofuráherslu á veraldlegan auð verði hamingjusamari en hinir sem leggja áherslu á minna. Hreinlega segir í þeim mikla viskubálki, Hávamálum: Margur verður af aurum api.

Borgarar þessa lands hafa orðið apar af aurum en vitaskuld getur maður líka orðið api af skorti á aurum. Fyrstu árin eftir hrun hafði drjúgur hluti landsmanna vart til hnífs og skeiðar. Enn er það svo með allt of marga. Fátækrargildra er hlutskipti  fjölda Íslendinga. Við lifum tíma þar sem ungum og einstæðum foreldrum er gert að greiða hundruð þúsunda í refsingu fyrir það eitt að greinast með krabbamein. Á sama tíma er aftur upp risin stétt manna sem geymir gullflögur í ísskápnum og bíður eftir rétta tækifærinu að sáldra þeim yfir morgunkornið.

Góðærishjólin svokölluðu snúast sumsé á sumum vígstöðvum, einkum vígstöðvum hinna innvígðu í landi hinna klikkuðu karla eins og Andri Snær orðaði það í frægri grein. Ytri skilyrði hafa verið góð, þökk erlendum ferðamönnum, þökk makríl, þökk lágu bensínverði, þökk heppnisdómi fyrir alþjóðlegum dómstóli, þökk haftalausn þar sem sérfræðingar fengu blessunarlega að ráða ferðinni en ekki pólitíkusar.  Bankanir soga á sama tíma fé úr vösum almennings sem aldrei fyrr. Bankarnir borga lykilböðlum háa bónusa fyrir aftökurnar á hinum almenna, félitla borgara sem býr við himinhá þjónustugjðld og okurvexti.

Eflaust sváfu sumir illa í nótt vegna skuldavanda og óréttlátrar gjaldtöku. En Morgunblaðið í dag greinir líka frá því að fólk sem hefur miklar tekjur hér á landi sofi minna en tekjulágir. Það leiðir hugann að því hvort ágirndin bíti um síðir í skottið á sér, hvort auður hinna auðugustu kunni að vera dýru verði keyptur. Við sváfum minna árið 2007 en árið 2009 skv. rannsókninni sem kynnt er í Mogganum. Svefnleysi hinna betur stæðu kemur að líkindum niður á því hvernig þeir koma fram við börnin sín. Sá sem lítur syfjuðum augum á tilgang jarðbröltsins er ekki endilega hæfastur til að leggja línur hvað varðar hvorki eigin velferð né velferð okkar hinna. Vel úthvíld manneskja er samkvæmt sálfræðinni líklegri til að verða gott foreldri og góður samfélagsþegn en sá sem græðir á daginn, grillar á kvöldin og nýtir nóttina líka til að græða aðeins meira. Rifjast þá upp allar sögurnar af hinum svokölluðu útrásarvíkingum fyrir hrun. Þeir bjuggu í ferðartösku, flugu um allar trissur í einkaþotum. Firrtust margir hverjir eigin börnum og fjölskyldu. Harmleikir og glæpamennska spruttu upp úr óstjórninni. Líf án jafnvægis er vont líf. Gildir einu hve mjög sumir elta þann óseðjandi púka sem græðgin er. Undir því yfirskini að með því að elta græðgina verði hag barnanna betur borgið - síðar.

Ég man þá tíð þegar ég varð atvinnulaus eftur hrun. Það var erfitt að falla af þeim virðingarstalli sem atvinna þykir hjá okkar iðnu og fremur einsleitnu þjóð. Um leið og önnur fyrirvinna heimilsins missti launatekjurnar tók við krefjandi menntavegur hins atvinnulausa í  skóla blankheita og nýrrar nægjusemi Við urðum öll að leggjast á þann plóg, færðum öll fórnir. Margt var djöfullega erfitt við þau umskipti, en á móti kom gjöfin að geta faðmað allan þann tíma sem gafst, nýtt tímann til góðra verka - ekki síst til að sinna fjölskyldunni sem setið hafði á hakanum í annríkinu fyrir hrun. Átta mánaða gamall drengur fékk eftir hrunið tíma minn gervallan. Mamman var útivinnandi en við tveir bjuggum til rútínu sem miðaði að því að sinna þörfum okkar beggja og við leituðum að þroskanum saman. Á hverjum degi ók ég með hann í barnavagninum í sund þar sem við lærðum í sameiningu að svamla í gegnum nýtt líf. Lékum saman, lásum saman, vorum alla daga saman. Ávinningur atvinnuleysistímans er sá að við fegðar erum sérlega nánir. Þótt við yrðum 300 ára gamlir held ég að fræ þeirra samverustunda sem sáð var eftir hrun muni skila endalausri uppskeru okkar tveggja á milli, uppskeru sem engir dauðir hluta geta gefið af sér.

Ég hef á fimmtíu ára ævi minni bæði upplifað góða tíma og magra tíma. Ég hef stundum haft ofurtekjur en eftirr hrun hafði ég engar launatekjur. Að fenginni reynslu og með því að bera saman tímana tvenna hef ég fundið út að hamingjan í lífi mínu hefur ekki orðið mest þá mánuði sem ég hef verið tekjuhár. Aldrei dytti mér í hug að upphefja blankheitin eða gera lítið úr því víti sem allt of margir stríða nú við vegna fátæktar, en það sem bjargaði mér var aukin áhersla á fólk en ekki fé. Leit að samhygð enda er maðurinn einn aldrei nema hálfur. Þótt við hefðum ekki efni á því í nokkur misseri að kaupa kex eða fara í bíó, þótt ég rakaði af mér allt hárið af því að það voru ekki til peningar fyrir klippingu, þótt maður saknaði þess stundum að fara aldrei út að borða eða gera vel við sig með nokkrum hætti voru árin eftir efnahagshrunið mikla að mörgu leyti lærdómstími. Í ljósi þess lærdóms fyllist hjartað af sorg þegar maður sér alla áhersluna nú á dauða og efnislega hluti - enn eina ferðina. Þar má að nokkru kenna um hinni alræmdu nýrfrjálshyggju, þeirri holu stefnu sem tekur ekki ábyrgð á nokkrum hlut öðrum en því að miðla þeirri hugsun að fólk sé ekkert annað en eigingjarnar vélar á markaði

Niðurstaðam eftir að hafa upplifað misgóða tíma er að enginn dauður hlutur er þess virði að fórna sér fyrir hann. Engin auður er svo eftirsóknarverður að hann eigi skilið að ræna okkur svefninum. Eflaust sinnum við hagsmunum barnanna okkar best með virkri áherslu á andleg gæði, enda skipta þau mestu. Við sinnum ekki skylldum okkar við börnin okkar með því að sofa lítið til að græða meira. Gildir einu þótt ávinningur næturpuðsins  leiði til þess að við höfum efni á  2ja vikna sólarlandaferð. Tveggja vikna sólarlandaferð tekur bara tvær vikur. Þá eru eftir 50 vikur af hverju ári. Hvað erum við að gera fyrir börnin okkar allan þann tíma? Það er spurning sem kannski er vert að gefa gaum að. Erum við að fórna okkur fyrir góðan eða vondan málstað? Lifum við fyrir hvert  annað eða lítum við svo á sem við séum í samkeppni hvert við annað, lifum við hvert gegn öðru eins og samsafn af heilalausum vélbúnaði?

Kirea heitin vísar veginn.

(þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)