Reynslulaus kosningastjóri í ráðuneytið

Katrín Oddsdóttir mannréttindalögfræðingur spurði á facebook í gær eftir að greint var frá því á vef utanríkisráðuneytisins að 22ja ára gamall nemi með hásetareynslu hefði verið ráðinn í stöðu aðstoðarmanns utanríkisráðherra, hvort búið væri að víxla bolludeginum og fyrsta apríl.

Lögmaðurinn er í hópi tuga Íslendinga sem hafa gagnrýnt ráðningu Gunnars Braga Sveinssonar á aðstoðarmanninum unga síðasta sólarhring. Hann heitir Gauti Geirsson, er 22ja ára gamall, nemur við HR og hefur unnið þau trúnaðarstörf  að vera kosningastjóri framsóknarmanna í sveitarstjórnarkosningum árið 2013 fyrir vestan og er að auki ritari ungra framsóknarmanna. Á vef ráðuneytisins er tekið fram að hann hafi starfað sem háseti.  Þegar kemur að störfum að utanríkismálum er Gauti reynslulaus með öllu og má víða lesa aðdróttanir um pólitíska spillingu á facebook. Um ræðir 50% stöðu.

Menntunarskortur Gunnars Braga var gagnrýndur þegar skipað var í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.  Pistlar hafa verið birtir á Internetinu þar sem t.d. ýmsir foreldrar sem eint verða vændir um flokkspólitíska afstöðu hafa spurt hvaða skilaboð sé verið að senda þeim sem brýna fyrir börnum sínum verðleika menntunar á tímum vaxandi sérhæfingar í samfélaginu og samskiptum Íslands við umheiminn.

\"Hann hefur migið í saltan sjó, kann ensku og getur borið fram nöfn landa á borð við Kyrgyzstan sem hefur hingað til verið vandamál ráðherra. Það er von utanríkisráðuneytisins að með ráðningu þessa hámenntaða reynslubolta geti starfsmenn ráðuneytisins andað léttar þegar utanríkisráðherra tjáir sig,\" skrifar Ævar Rafn Kjartansson.

Aðrir hafa komið Gunnari Braga og aðstoðarmanninum til varnar. Bent hefur verið á að prófgráður séu ekki upphaf og endir alls. Hitt hefur verið nefnt í umræðunni um ráðningu aðstoðarmannsins á félagsmiðlum að það sé erfiðara en áður að ganga framhjá menntuðu fólki þegar um ræðir opinberar stöður árið 2016. Aðstoðarmenn eigi að vera ráðherrum ráðgjafar. Spurt hefur verið hvort haltur leiði blindan í utanríkisráðuneytinu og hvort borgarar landsins eigi svona stjórnsýslu skilið.

 ps: Þessi skrif eru ekki árás á unga manninn, honum óska ég alls hins besta líkt og utanríkisstefnu landsmanna. Þessi skrif eru gagnrýni og vel má lesa þau sem harða gagnrýni á utanríkisráðherra. Allir þeir sem ekki eru tengdir, vanhæfir eða venslaðir málinu hljóta að sjá að svona vinnubrögð eru fokkmerki framan í almenning. Á viðsjárverðum tímum þar sem öllu gildir fyrir dvergríki eins og Ísland að misstíga sig ekki í samfélagi siðaðra þjóða getur ein svona ráðning verið kornið sem fyllir mælinn hjá þjóð sem treystir ekki ráðandi stjórnmálamönnum samtímans - er það furða?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is.)