Páskarnir búnir - sdg upprisinn!

Fyrir viku stefndi í að dagar Sigmundar Davíðs á forsætisráðherrastóli væru taldir. Að hann hefði krossfest sjálfan sig sem æðsta valdhafa þjóðarinnar.

Stjórnarandstaðan var þá loks búin að gíra sig upp í mikinn ham eftir að hafa farið seint og illa af stað í því göfuga verkefni að verja hagsmuni almennings, berjast fyrir trausti og tiltrú milli almennings og valdhafa líkt og allar þjóðir eiga skilið. Það var fyrst eftir að þingið var komið í páskaleyfi sem þingmenn minnihlutans fengu kjark til að stíga fram, hver á fætur öðrum, krefjast þess að dans yrði stiginn umhverfis Golgatahæð. Þeir staðhæfðu þá minnihlutaþingmennirnir að vantraust yrði borið upp á Sigmund Davíð Gunnlaugsson vegna Tortólamálsins. En bara um leið og þing kæmi aftur saman eftir páskafrí.  Hugsjónin var þeim ekki æðri en svo, alvara málsins var ekki meiri en svo að enginn þeirra nennti að senda þingforseta bréf og kalla eftir að þing kæmi tafarlaust saman vegna málsins. Frá og með þessu andvaraleysi náði SDG að skora fyrsta markið, 0-1 fyrir Sigmund. Því ef ástæða er einhverju sinni að leggja fram persónulegt vantraust á forsætisráðherra lýðræðisþjóðar vegna spillingarmáls – er þá ekki ákveðin þversögn í því að ætla samt að láta svo alvarlegt mál bíða í einhverjar vikur?

Tímasetningar skipta öllu í pólitík

Minnihlutaþingmennirnir sem eiga að gæta hagsmuna þjóðarinnar voru ekki bara latir og værukærir, þeir voru líka seinir í að manna sig upp í að fylgja eftir fordæmi eina óboðna gestsins á Alþingi sem líkt og í HC Andersen ævintýrinu sá um leið og málið kom upp að keisarinn var ekki í neinum fötum. Hann benti á það, óboðinn varaþingmaður, óboðinn ljótur andarungi í ræðustóli á Alþingi. Þá varð allt brjálað meðal framsóknarþingmanna á meðan þingmenn minnihlutans þögðu flestir þunnu hljóði. Þeir vissu það meirihlutaþingmennirnir að með því að snúa ábyrgðinni við, með því að bregðast illa við andarunganum, með því að blása til sóknar sem gekk út á að gera valdamesta mann landsins að þolanda í spillingarmáli, með því að sparka af alefli í varaþingmanninn og senda það spark áfram sem öflug skilaboð til minnnihlutaþingmanna, fjölmiðlamanna og annarra þeirra sem ber að gæta hagsmuna almennings, að nú ætlaði valdið að sýna tennurnar sem aldrei fyrr, nú yrði dokúmenterað hverjir myndu voga sér að standa í lappirnar og hverjir ekki, með þessu öllu náði Sigmundur Davíð að kaupa sér tíma. Krossfestingu slegið á frest.

Á meðan Sigmundur Davíð þagði, á meðan sjálfæðismennirnir þögðu og vörðu þar með óbeint forsætisráðherra þjóðarinnar, á meðan framsóknarþingmennirnir fylktu sér gagnrýnislaust í kringum foringja sinn, verjandi eigin stöðu og eigin hagsmuni í leiðinni, fékkst keyptur dýrmætur tími. Það var svo vel valin tímasetning hjá forsætisráðherra að veita máttlausum spyrlum Fréttablaðsins einkaviðtal um leið og páskafríið hófst hjá landsmönnum en hundsa fullkomlega fréttastofu Rúv sem fyrir utan jaðarmiðlana hafði staðið sig best af stærstu fjölmiðlunum í því að sinna aðhalds- og eftirlitshlutverki fjölmiðla í málinu.

Refur snýr vörn í sókn

Refurinn veit að sókn er oft besta vörnin. Eftir langa þögn bendir nú margt til að forsætisráðherra hafi náð vopnum sínum – ekki síst þar sem hann hefur blásið til nýrrar leiftursóknar. Hann segir: Ég mana ykkur til að lýsa yfir vantrausti á mig – þá fæ ég tækifæri til að fara yfir öll afrekin sem ég hef unnið!

Hvers vegna talar forsætisráðherra í miklum vanda svo digurbarkalega? Vegna þess að páskarnir eru búnir, það er engin krossfesting lengur á dagskrá. Föstudeginum langa var frestað og þótt það hafi ekki orðið nein krossfesting þann dag þetta árið eins og kristnu gildunum er þó svo tamt að minna á þá er forsætisráðherra þjóðarinnar upprisinn.

Ég byggi þá ályktun á því að fyrr í dag hringdi ég sem fréttamaður á Hringbrautarvaktinni í þingmann í stjórnarandstöðunni. Hugðist afla frétta af því hvort minnihlutinn væri búinn að taka endanlega ákvörðun um að bera upp vantraust á þingmanninn SDG eftir að páskaleyfi lýkur.

 “Æi, ég veit ekki alveg hvernig þetta mál fer,” svaraði minnihlutaþingmaðurinn. Baðst svo undan því að nokkuð yrði haft eftir honum um málið.

Á grunni þessa símtals og fleiri vísbendinga raunar tel ég óhætt að halda því fram á opinberum vettvangi að margt bendi til að minnihlutinn sé búinn að lyppast í málinu. Margt bendir til að forsætisráðherra muni ríkja á þessu landi heilt ár í viðbót. Að hann muni klára kjörtímabilið.

Nú skal ekki lagt mat á hvort það sé gott eða vont fyrir þjóðarbúið hvað varðar efnahagslegar mælistikur. En siðferðislega er það óheppilegt. Allar þjóðir eiga skilið að helstu trúnaðarmenn almennings séu vammlausir. Það eitt að vafi skapist um störf þeirra og hagsmunaárekstra ætti að duga til afsagnar. Það er vandi allrar þjóðarinnar að búa nú við forsætisráðherra sem grunur leikur á að hafi ekki bara “lent í hagsmunaárekstrum” heldur hafi vísvitandi stöðu sinnar vegna sem stóreignamaður reynt að koma í veg fyrir að upplýsingar um árekstra lægju fyrir, geymandi sitt fé í vægast sagt illa þokkuðu skattaskjóli.

Siðferðislegt andvaraleysi

Það er umhugsunarefni sem siðfræðingar hafa bent á að ef Sigmundur Davíð sér ekki eigið vanhæfi sé vandinn yfirgipsmeiri en ella. En mér finnst líklegra að hann sjái vel eigin sök. Rækilega studdur af valdamiklum öflum sem eiga margt undir því að hagsmunum hinna auðugustu verði áfram hampað, veit hann einfaldlega að það er hægt að verjast í nánast vitavonlausri stöðu – ef sóknarliðið er vanhæft!

Það hefur því ekki bara verið pungspark að sjá málið koma upp, það hefur einnig verið dapurlegt að sjá þingmenn minnihlutans kveikja svo seint og illa á alvöru málsins, sjá þá svo fara silkimjúkum höndum um forsætisráðherra í hneykslismáli, kannski vegna þess að minnihlutaþingmennirnir voru búnir að skipuleggja páskafríið sitt og nenntu bara ekki að breyta plönum?!

Samadregið gefa þessar vangaveltur að ofan tilefni til eftirfarandi spurningar: Er sjálfgefið að hér yrðu siðbætur þótt aðrir flokkar en gömlu valdaflokkarnir tveir tækju við ríkisstjórnartaumunum að ári?

Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is.