Paradísarmissir eyþórs arnalds

Þá er lokið því kjánalega leikriti sem Eyþór Arnalds hefur haldið úti frá því úrslit kosninganna láu fyrir í Reykjavík um síðustu helgi. Leikritið hefur gengið út á að hann og Sjálfstæðisflokkurinn væru á leið í viðræður við einhvern um myndun meirihluta í Reykjavík.

Þær hugrenningar hafa aldrei verið raunverulegar því enginn hefur viljað samstarf við Eyþór og félags nema Vigdís Hauksdóttir, lagskona hans úr stjórn Heimssýnar, sem er félag áhugamanna um einangrun Íslands.

Nú geta þau látið af einfeldingslegum yfirlýsingum sínum í fjölmiðlum því hafið er formlegt ferli til myndunar nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.
Nýjan meirihluta skipa Viðreisn, Píratar, VG og Samfylkingin, samtals með 12 borgarfulltrúa. 

Hver veit nema þau bjóði Flokki fólksins með. Sósíalistaflokkurinn hefur teflt sér út af borðinu og enginn áhugi er fyrir Eyþóri, Vigdísi eða flokkum þeirra.

Eyþór Arnalds hefur reynt að halda því fram að túlka megi úrslit kosninganna sem “hægrisveiflu” í Reykjavík. Það stenst enga skoðun.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bætti við sig 5% frá því afhroði sem hann galt í Reykjavík 2014. Það var nú allt of sumt. 30.8% fylgi flokksins er næstversta útkoma hans frá upphafi. Einungis hörmungin 2014 er verri.

Til hægri teljast nú 9 borgarfulltrúar, 3 á miðjunni og 11 til vinstri. Það er nú öll “hægrisveiflan”.

Það er því fyllilega í samræmi við úrslit kosninganna að unnið sé að myndun miðju-og vinstristjórnar í Reykjavík. Það er lýðræðisleg niðurstaða. 

Eyþór og Vigdís verða einfaldlega að horfast í augu við það um leið og þau undirbúa sig fyrir starfið í valdalausum minnihluta næstu fjögur árin.

Hugmyndum Eyþórs Arnalds um að hverfa aftur til fortíðar var hafnað. Ekki er meirihluti fyrir þeim.

Honum mun ekki hlotnast sú sæla að baða sig í valdi og sviðsljósi embættis borgarstjóra. Ekki núna alla vega.

Hver veit nema gangi bara betur næst.

Rtá.