Opið bréf til bjarna ben - þú þarft að hitta jósa

Kæri Bjarni Benediktsson

Mig langar að bjóða þér á minn eigin kostnað til Spánar. Þú þarft að hitta þar mann.

Jose Manuel Soria, iðnaðarráðherra Spánar, sagði nefnilega af sér í morgun vegna uppljóstrana í Panamaskjölunum svokölluðu. Í ljós kemur í skjölunum að ráðherrann tengist skúffufélögum í skattaskjólum eftir því sem fram kemur í frétt Rúv.
 

Í yfirlýsingu í morgun segir ráðherrann að hann segi af sér í ljósi þeirra mistaka sem hann hafi gert síðustu daga við að skýra út viðskiptastarfsemi sína og segi af sér vegna þess tjóns sem málið hafi valdið ríkisstjórn Spánar.

Það er nefnilega það, Bjarni minn. Varð þó Jósi þessi ekki uppvís að því að ljúga blákalt eins og þú í Kastljósinu þegar Helgi Seljan spurði hvort þú tengdist félögum í aflandsríkjum. Og það trúir því ekki nokkur maður, ekki einu sinni þú sjálfur, að þú hafir ekki vitað það eða gleymt því eða hvað þú annars gosaðist til að segja, að þú ættir félag á Seychelles-eyjum. Tókstu eftir því, kæri Bjarni, hvað Jósi hinn spænski sagði: Hann segir af sér vegna þess tjóns sem málið hafi valdið ríkisstjórn Spánar. Og tjón sem unnið er á ríkisstjórn er beint tap borgaranna sjálfra.

Hvað má nú segja um ríkisstjórnina hér og þá staðreynd að þið Ólöf eruð enn með ykkar á blett á bakinu og verður svo um ókomna tíð. Birting skattagagnanna þinna í gær var ágæt en harla ófullkomin. Þú framlengir nú líf ríkisstjórnar sem er undir forystu manns sem fimm prósent Íslendinga vilja sjá sem forsætisráðherra. Fimm prósent!

Er þetta ekki orðið ágætt, Bjarni minn. Jósi myndi segja að nóg væri komið. Ef þú ert ringlaður vegna þess að fleiri kjósa Sjálfstæðisflokkinn þinn núna en í síðasta mánuði held ég að það sé vegna þess að þeir sem haka við Flokkinn þinn geri það vegna þess að siðvit þeirra sé skert. Við erum öll hálfringluð þessa dagana. Nú er tækifæri þitt til að efla siðvit flokksmanna þinna svo allir fái notið góðs af síðar. Ekki bara sjálfstæðismenn heldur landsmenn allir.

Ég er meira en til í að nurla saman þeim krónum sem þarf úr eigin vasa til að þið Jósi getið hist. Ég borga báðar leiðir, ekki bara út. Mér þykir nefnilega þrátt fyrir allt býsna vænt um þig og þína mannlegu bresti. Þess vegna óska ég þess að þú gerir nú það sem þú þarft að gera. Stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Að stíga til hliðar fyrir okkur yrði þinn styrkur síðar.

Bestu kveðjur

Björn Þorláksson