Ólga og valdabrölt í vís

Átök og skortur á samstöðu einkennir stjórn VÍS. Enn ein breyting varð á stjórn vátryggingrfélagsins þegar Herdís Fjeldsted sagði sig úr stjórninni í gær. Herdís var formaður VÍS þar til á aðalfundi þann 15. mars en þá felldi Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir hana öllum að óvörum. Mikið los hefur verið á stjórn félagsins síðan það fór á markað fyrir rúmum þremur árum. Svanhildur er fjórði formaður félagsins á þessum stutta tíma. Jafnframt hafa margir stjórnarmenn komið við sögu og stoppað stutt. Þá urðu forstjóraskipti í fyrra þegar Sigrún Ragna Ólafsdóttir vék fyrir Jakobi Sigurðssyni en langur aðdragandi hafið verið að brottför hennar.

Dagfari hefur heimildir fyrir því að hluthafar VÍS hafa áhyggjur af þeirri ólgu sem er innan félagsins. Ætla má að einhverjir þeirra séu órólegir og vilji forða sér úr hluthafahópi þessa annars ágæta félags. Á sama tíma og samstöðu skortir hjá VÍS, ríkir einhugur hjá stóru keppinautunum, Sjóvá og TM, en þar hafa litlar breytingar orðið á stjórnum á undanförnum árum og forstjórar fyrirtækjanna njóta stuðnings stjórna og hluthafa. Það hlýtur að gefa þeim aukinn kraft í þeirri miklu samkeppni sem ríkir á íslenska tryggingamarkaðnum sem einkennist nú af síminnkandi tryggð viðskiptavina við fyrirtækin.

Lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir eiga um helming alls hlutafjár í VÍS. Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Guðmundur Þórðarson eiginmaður hennar, Sigurður Bollason og stuðningsmenn þeirra eiga um 20% hlutafjár en hafa nú tekið öll völd í félaginu. Eftir að Herdís sagði af sér er einungis einn stjórnarmaður sem nýtur stuðnings lífeyrissjoða og sjóða sem eiga meirihluta í félaginu. Það er Helga Hlín Hákonardóttir. Ýmsir vilja líkja stöðunni innan VÍS við hálfgert “valdarán” og margir eru uggandi og treysta formanninum nýja og samferðarmönnum hennar illa fyrir þeim miklu hagsmunum sem þarna er um að tefla.

Bótasjóðir vátryggingafélaga eru stórir og afar vandmeðfarnir. Sporin hræða frá því fyrir hrun þegar Karl Wernersson og félagar keyptu Sjóvá og gengu heldur ógætilega um bótasjóði félagsins með kunnum afleiðingum – bæði fyrir félagið sem ríkið þurfti að bjarga með tugmilljarða framlögum – og fyrir þá sjálfa sem fengu þunga refsidóma og fangelsisvist vegna háttsemi sinnar.

Inn í átökin hjá VÍS blandast álitamál varðandi tengsl VÍS og Kviku banka en VÍS keypti í fyrra 22% hlut í Kviku. Guðmundur Þórðarson hefur nú tekið sæti í stjórn bankans þannig að þau hjón eru nú við völd í bæði í VÍS og Kviku. Ýmsir eru órólegir yfir þeirri stöðu. Fróðlegt verður að fylgjast með afstöðu FME til þessa samkrulls.

Herdís Fjeldsted, sem naut stuðnings lífeyrissjóða, hefur ekki enn tjáð sig við fjölmiðla um ástæður afsagnar sinnar. Hún hlýtur að gera það og verður fróðlegt að heyra um ástæður þess að hún velur að segja af sér tveimur vikum eftir að hún er kjörin í stjórn félagsins. Fyrir þeirri ákvörðun hljóta að liggja ríkar ástæður sem fróðlegt verðuir að heyra um frá henni.

Hins vegar má öllum vera ljóst að hún segir af sér vegna vantrausts á Svanhildi Nönnu og hennar liði. Herdís vill greinilega ekki taka neina ábyrgð sem stjórnarmaður á því sem framundan er hjá VÍS. Það fylgir því mikil ábyrgð að sitja í stjórn fyrirtækis sem skráð er á Kauphöll Íslands. Kröfur til vátryggingafélaga eru jafnvel enn meiri en til annarra skráðra félaga og því er eðlilegt að stjórnarmenn vilji vera vissir um stöðu sína.

Þá verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum þeirra hluthafa sem eiga meirihluta í VÍS. Láta þeir gott heita? Grípa þeir til ráðstafana varðandi stjórn félagsins? Kjósa þeir með fótunum? Eða bíða þeir átekta?

Svör við þessum spurningum fást á næstunni en margt bendir til þess að átökin um VÍS og Kviku banka séu rétt að byrja.