Ólafur ragnar gæti leitt utanþingsstjórn

Forystumenn allra stjórnmálaflokka eru alltaf sammála um eitt. Það er að þeir vilja forðast eins og heitan eldinn að forseti Íslands fái tækifæri til að mynda utanþingsstjórn. Ólaf Ragnar dreymdi oft um það en til þess kom ekki á löngum ferli hans. Stjórnmálamönnum þætti það niðurlægjandi og þeir eru ávalt tilbúnir að leggja mjög mikið á sig til að forðast utanþingsstjórn. Sagan kennir okkur það.

Það vekur athygli hve ógætnir ýmsir forystumenn stjórnmálaflokkanna hafa verið að undanförnu þegar kemur að vangaveltum um möguleg stjórnarmynstur. Sumir þeirra keppast við að lýsa því yfir að þeir vilji alls ekki mynda stjórn með tilteknum flokkum. Þetta á m.a. við um Pírata sem hafa sagt að þeir geti ekki myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem svarar í sömu mynnt og segist ekki geta myndað stjórn með Pírötum. Ef formenn flokkanna tala yfir sig varðandi hugsanleg stjórnarmynstur, gæti það endað með því að ekki verði unnt að mynda starfhæfa ríkisstjórn og þá kæmi til kasta forsetans að mynda utanþingsstjórn sem hlyti að teljast vera neyðarúrræði.

Líkur á stjórnarkreppu verða meiri eftir því sem atkvæði dreifast meira. Ef enginn flokkur verður stærri en t.d. 22% og næstu flokkar þar á eftir fá á bilinu 15 til 18% atkvæða, þá er ljóst að ekki verður mynduð stjórn færri flokka en þriggja. Það gæti orðið þrautin þyngri ef flokkarnir hafa útilokað samstarf hver við annan með afgerandi hætti.

Tökum dæmi: Gefum okkur að Sjálfstæðisflokkur fái 15 þingmenn, Píratar og Viðreisn 13 þingmenn hvor, VG 12, Framsókn og Samfylking 5 þingmenn hvor. Þá gæti orðið mjög vandasamt að mynda ríkisstjórn, sérstaklega ef forystumenn flokkanna verða búnir að útiloka of marga kosti fyrirfram.

Lendi forseti Íslands í þeirri stöðu að þurfa að skipa utanþingsstjórn, þá hefur hann manninn til að leiða slíka stjórn. Ólafur Ragnar Grímsson gæti orðið forsætisráðherra utanþingsstjórnar. Sennilega þyrfti ekki að leggja hart að honum til að fá hann í verkefnið!

Gæta þyrfti þess að skipa aðra ráðherra úr ýmsum áttum en líklega yrði sóst eftir mikilli stjórnmála-eða embættisreynslu. Öflugt væri að fá Má Guðmundsson til að verða fjármálaráðherra, Þorstein Pálsson í utanríkismálin og svo mætti staldra við eftirtalda til að gegna öðrum ráðherraembættum: Sigrúnu Magnúsdóttur, Svavar Gestsson, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Einar Kristinn Guðfinnsson og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur svo einhverjir séu nefndir.

Þetta gæti orðið býsna öflug ríkisstjórn.