Nýir og heilbrigðir leiðtogar óskast

Stundum heyrir maður því fleygt að pólitík sé bara fyrir lítinn hóp nöldrara. “Pólitík er svo leiðinleg, mér kemur hún ekki við,” segir sumt fólk. Þetta sama fólk gleymir að stundum hefur pólitíkin mannslíf borgaranna í greip sinni  og það í bókstaflegum skilningi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson taldi tíma sínum sem forsætisráðherra best varið á Viðskiptaþingi í síðustu viku með því að ráðast á Pírata vegna áhuga þeirra á að láta kanna upptöku Borgaralauna hér á landi. Hringbraut vann þátt um borgaralaun á síðasta ári þar sem hugmyndin var rædd út frá ólíkum sjónarhornum. Þá voru borgaralaun iðulega í fréttum en þá sagði forsætisráðherra ekki múkk. Að hann hafi kosið í síðustu viku að ráðast að Pírötum vegna hugmyndar hluta Pírata um borgaralaun, er sennilega ekkert annað en smjörklípa. Smjörklípa vegna þess að ef Sigmundi Davíð tekst að láta umræðuna snúast um óljósa hugmynd (sem ekki er sérlega líklegt að verði nokkru sinni að veruleika) snýst umræðan þá ekki á sama tíma um þá stærstu ógn sem steðjar að pólitískum ferli ríkisstjórnarinnar. Við erum að tala um stéttskipta heilbrigðisþjónustu sem borin hefur verið á borð - en þjóðin hafnar. Margir óttast að næsta skref hér á landi verði upptaka tryggingakerfis sem aðeins geri hinum efnameiri kleift að fá góða þjónustu ef heilsan bilar.

Þó verður að geta þess í sanngirnislegu tilliti að það brýtur ekki bara á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eftir að Kári Stefánsson hratt af stað undirskriftasöfnuninni um að styrkja heilbrigðiskerfið. Hin almenna þátttaka Íslendinga í þessari undirskriftasöfnun gefur fyrri ríkisstjórnum einnig rautt spjald, þeim sem skópu þær aðstæður að heilbrigðiskerfið okkar breyttist. Þjóðarákallið nú er andóf gegn öllum þeim stjórnmálamönnum sem hafa með ákvörðunum sínum skapað þær aðstæður að nú er seilst ofan í vasa þeirra sem síst skyldi, hinna fátæku, hinna veiku og hinna öldruðu.

Við lesum fréttir af fólki sem fer á slysó og þarf að borga 33.000 krónur fyrir eina rannsókn úr eigin vasa. Við lesum fréttir af fólki sem þarf að punga út milljónum eftir að hafa greinst með krabbamein. Við lesum fréttir af konu sem þurfti að borga ríflega 10.000 krónur fyrir að fá þær upplýsingar frá krabbameinslækni að hún væri komin með krabbamein á lokastigi. Við lesum fréttir af fólki sem er geymt í skápum, geymslum, göngum innan veggja spítalanna. Við lesum fréttir af manni sem gleymdist á aðgerðarborði í tvær klukkustundir vegna annríkis starfsfólks. Þessar fréttir eiga allar eitt sameiginlegt. Ekki snefil af mannúð er að finna í nokkurri þeirri. Er það þó hin sameiginlega mannúð okkar fyrrum samhentu eyþjóðar sem hefur gert okkur að því sem við urðum, þjóðin sem reis úr öskustónni um miðja síðustu öld.

Á sama tíma og hryllingsfréttir úr heilbrigðiskerfinu eru nánast daglega bornar á borð lesenda lesum við líka fréttir sem benda til þess að þrátt fyrir óskapnaðinn séu Íslendingar sammála um að hér eigi að vera félagslegt og að mestu leyti ríkisrekið heilbrigðiskerfi. Við lesum fréttir um að Íslendingar séu alveg til í að greiða allháa skatta, einmitt til að geta veitt sjúkum lið og til að vera öruggir um að fá sitt til baka ef veikindi koma upp.

Við sem erum með grátt í vöngum minnumst þess mörg hver að fram á tíunda áratug síðustu aldar var það þannig að sá sem varð veikur og leitaði aðhlynningar þurfti nánast aldrei að opna eigið veski nema fyrir smotterí. Þá sat Ísland þó mun neðar á listum yfir ríkustu þjóðir heims. Nú eru þjóðartekjur margfalt meiri, ríkidæmi að meðaltali meira en meðaltal segir ekki allt. Á sama tíma og allstór hópur fólks er ofsalega ríkur er sennilega enn stærri hópur nálægt því að búa við fátæktarmörk. Á sama tíma og heilsu landsmanna skal stéttaskipt eftir efnahag þegar síst skyldi, þarf fólk sem verður alvarlega veikt að hafa fjárhagsáhyggjur sem tengjast aðgerðum og meðferð sjúkdóma þeirra - ofan á allt annað. Og í stað þess að sinna því kalli að vinda ofan af því óréttláta heilbrigðiskerfi sem flestir landsmenn hafa stæka andúð á, hjólar æðsti maður þjóðarinnar í borgaralaunin, af því að hann veit að hugmyndin um þau er umdeild. En þörfin fyrir umbætur í heilbrigðiskerfinu er ekki umdeild.

Sigmundur Davíð hefði betur látið ræðu sína á Viðskiptaþingi fjalla um þau villiljós sem íslenskar ríkisstjórnir hafa á undanförnum áratugum kveikt innan heilbrigðiskerfisins. Þessar ríkisstjórnir voru ekki kosnar til að stéttaskipta þjóðinni. Þær voru ekki kosnar til að einkavæða heilbrigðiskerfið eða koma á sjúklingasköttum sem nema nú um 20% af öllum kostnaði við heilbrigðiskerfið. 20% sjúklingaálögur eru hrikaleg staðreynd, höfð eftir fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem vitnar til gagna frá opinberum aðilum. Hinir sjúku, þeir sem maður skyldi ætla að helst ætti efnahagslega að hlífa, þurfa nú úr eigin sjúka vasa að reiða fram fimmtung alls kostnaðar sem fellur til við heilbrigðiskerfið. Kannski er það sami hópur sem hefur lengi haldið heilbrigðiskerfinu uppi með sköttum sínum. Hvar er réttlætið? Hvað er mannúðin?

Það er með ólíkindum að ekki hafi á síðustu vikum stigið fram stjórnmálaleiðtogi sem segir: “Fyrir næstu kosningar heitum við því að sjúklingaskattar verði úr sögunni, við ætlum að endurreisa félagslegt og ríkisrekið heilbrigðiskerfi, við ætlum að viðurkenna rétt sérhvers manns til mannlegrar reisnar og þá ekki síst þeirra sjúku, öldruðu og fátæku. Við ætlum að nýta almannafé til að styðja við þá sem helst þurfa á því að halda.”

Hvar er þessi leiðtogi? Af hverju stígur hann ekki fram? Sigmundur Davíð myndi eflaust segja að það vantaði pening til að geta látið svona “draumóra” verða að veruleika og yfirlýsingu hans myndi eflaust fylgja yfirlætislegt bros hins óreynda leiðtoga sem ekki veldur verkefni sínu. Hugmyndaflug og eða hagsmunatengingar forsætisráðherra byrja honum sýn. Hann sér ekki það sem flestir sjá á einu augabragði; að það væri hægt að ná strax í hundrað milljarða króna með því einu að skattleggja álfyrirtækin, útgerðirnar og aðra þá sem hafa vanist því að raka saman fé úr sameiginlegum auðlindum okkar fyrir nánast ekki neitt.

Þeir stjórnmálamenn sem leiða flokka sem nú eru í krísu gætu hugað að því að þeir hafa fengið ómetanlegan vegvísi til framtíðar, könnun Kára Stefánssonar. Stuðningurinn við undirskriftaátakið er marktæk vísbending um að landsmenn segi: Við krefjumst þess að veikum verði hlíft. Við viljum félagslegt heilbrigðiskerfi eins og það var í gamla daga. Við höfnum því alfarið að nú sé þannig komið fyrir okkur sem fyrrum samhentri þjóð, að óréttlátt kerfi og óréttlát pólitík hreinlega leiði til þess í kjölfar veikinda að fólk með litlar fjárhagslegar bjargir látist ótímabærum dauða. Að ekki sé talað um að veiku fólki sé gert að skilja við án mannlegrar reisnar síðasta ævispölinn.

Það er kjaftæði að þetta sé mjög flókin umræða. Hún snýst um jöfnuð og réttlæti og hún er sáraeinföld. Vilji er allt sem þarf og það þarf ekki að rífast um þjóðarviljann lengur. Hann hefur birst í ákalli Kára Stefánssonar. Þjóðin tók þátt í skákinni með Kára og hefur leikið sinn leik. Nú bíðum við þess að pólitíkusar bregðist við. Þeir hinir sömu og við höfum gleymt að sýna aðhald - af því að pólitík er eitthvað svo leiðinleg og óspennandi. Það gleymist að stundum eru líf okkar, heilsa og limir í höndum misgóðra stjórnmálamanna.  Runnin er upp ögurstund fyrir nýtt og betra Ísland. Nýtum hana!

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)