Nú eru góð ráð dýr fyrir viðreisn og bjarta framtíð

Framtíðin er alls ekki björt hjá Viðreisn og Bjartri framtíð ef marka má nýja skoðanakönnun MMR sem gerð var dagana 18. til 21. júlí. Svarendur voru 909 þannig að könnunin hlýtur að teljast marktæk. Hvorugur þessara ríkisstjórnarflokka kæmi manni á þing ef kosningar færu fram núna og úrslitin yrðu í samræmi við könnun MMR.

Niðurstaða þessarar könnunar er heldur lakari hjá Viðreisn og BF en verið hefur síðustu mánuði. Flokkarnir hafa verið að mælast með um helming kjörfylgis eins og það var í kosningunum hausti 2016. Viðreisn hefur yfirleitt verið með í kringum 5-7% fylgi í þessum könnunum en var með 11% í kosningunum. En nú er niðurstaðan enn lakari, einungis 4,7%, sem er svo slæm niðurstaða að flokkurinn kæmi ekki fulltrúa á Alþingi. Ná þarf 5% kjörfylgi að lágmarki til að koma manni á þing. BF fengi einungis 2,4% fylgi samkvæmt MMR-könnuninni og væri fjarri því að ná manni inn.

Þessi útreið stjórnarflokkanna tveggja er enn athyglisverðari fyrir það að Sjáfstæðisfokkurinn héldi kjörfylgi sínu frá kosningum haustið 2016 og fengi væntanlega sama fjölda þingmanna kjörinn og þá eða tuttugu og  einn.

Vinstri grænir bæta við sig fylgi og fengju 20,4% sem gæfi þeim fjórtán þingsæti. Þannig gætu þeir myndað tveggja flokka meirihlutaafturhaldsstjórn með Sjálfstæðisflokki, ef þessi yrði niðurstaða kosninga. 

Píratar standa í stað og héldu tíu þingmönnum, Framsókn tapaði einum og fengi sjö þingmenn en Samfylkingin bætti við sig fjórum þingmönnum, færi úr þremur í sjö. Flokkur fólksins fengi nú fulltrúa kjörna á þing í fyrsta skipti. Flokkurinn mælist með 6,1% fylgi sem gæfi þeim fjögur þingsæti.

Forystumenn Viðreisnar og BF komast ekki lengur hjá því að horfast í augu við þá þróun sem verið hefur allt frá myndun ríkisstjórnarinnar fyrir hálfu ári og enn er staðfest með MMR-könnuninni. Fylgi þessara tveggja flokka er hrunið þannig að hvorugur þeirra kæmi manni á þing. Með þessu áframhaldi munu báðir flokkarnir þurrkast út og hverfa af vettvangi íslenskra stjórnmála. Það hefur örugglega ekki verið ætlun ráðherra, þingmanna og annarra forystumanna flokkanna tveggja.

En hvað er til ráða? Nú eru góð ráð dýr.

Viðreisn og BF geta ekki haldið áfram með óbreyttum hætti. Þá stefna flokkarnir báðir beint fram af brúninni. Athyglin hlýtur að beinast að formönnum flokkanna. Óttar Proppé og Benedikt Jóhannesson stóðu sig báðir vel í kosningabaráttunni á síðasta hausti og þeir sýndu klókindi við myndun núverani ríkisstjórnar. Þeir tóku báðir sæti í ríkisstjórn eins og kunnugt er. Nú er stjórnin hálfs árs gömul og þeim hefur báðum gengið afar illa að sinni bæði ráðherraembættum og formennsku í flokkum sínum. 

Óttar þykir hafa týnst í ráðuneyti sínu. Hann er gagnrýndur fyrir að koma ekki nægilega mikið fram og vera ekki afgerandi í framgöngu. Benedikt er aftur á móti gagnrýndur fyrir að koma of mikið fram og gefa vanhugsaðar yfirlýsingar. Framganga hans þegar hann vildi taka seðla úr umferð á Íslandi var algert vindhögg og færði mörgum heim sanninn um það að hann væri meiri embættismaður en stjórnmáamaður. Formenn í flokkum verða að vera stjórnmálamenn. Annars farnast flokkunum illa. Þá virðist Benedikt vera sérlega seinheppinn með val á ráðgjöfum og aðstoðarfólki.

Staða Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er nú með þeim hætti að báðir flokkar verða að skipta um forystu sem fyrst. Fái flokkarnir ekki andlitslyftingu með nýjum formönnum, þá er viðbúið að dagar þeirra verði brátt taldir. Flokkarnir þurfa að breyta um forystu sem allra fyrst og það strax á hausti komanda. Sveitarstjórnarkosningar verða næsta vor og hefja þarf undirbúning undir þær eftir fáar vikur. Ný forysta þessara flokka þarf að leiða þann undirbúning og þá kosningabaráttu sem framundan er. 

Þá væri full ástæða fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð að kanna hvort grundvöllur væri til sameiningar þessara tveggja flokka og jafnvel að bjóða fleiri stjórnmálaöflum um borð.

Báðir þessir flokkar standa fyrir mikilvæg stefnumál og þeir eiga fullt erindi við kjósendur. Ef karlarnir í brúnni fiska ekki, þá verða þeir að víkja fyrir öðrum því enginn einstaklingur í nokkrum flokki er stærri en flokkurinn sjálfur.

 

 

rtá.