Mun dagur halda velli í reykjavík?

Áhugamenn um stjórnmál eru byrjaðir að spá í sveitarstjórnarkosningar sem munu fara fram vorið 2018. Mestur spenningur er vitanlega fyrir þróun mála í Reykjavík. Völd í höfuðborginni hafa raunverulegt pólitískt gildi en það sama verður ekki sagt um önnur sveitarfélög þó úrslit þar skipti vitanlega máli.

Erfitt er að átta sig á stöðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Hann hefur yfirburði yfir aðra stjórnmálamenn sem sinna sveitarstjórnarmálum á Íslandi um þessar mundir. En hart er sótt að honum úr ýmsum áttum. Hann er vanur að fást við slíkt. Ekki er víst að stöðugur rógur um hann í sumum fjölmiðlum muni hafa áhrif en þó er það alls ekki útilokað. Dagur hefur kjörþokka sem er allt annað en aðrir borgarfulltrúar geta státað af.

Sjálfstæðisflokkurinn á nú einungis fjóra borgarfulltrúa sem er það minnsta sem flokkurinn hefur haft. Ekki eru nema rúm 20 ár síðan flokkurinn gat státað af 10 borgarfulltrúum af 15. Síðan hefur orðið gjörbylting á pólitísku landslagi í borginni. Núverandi borgarfulltrúar flokksins eru því miður afar litlausir sem stjórnmálamenn; þau Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Júlíus Vífill Ingvarsson, sem kjörinn var til setu í borgarstjórn í síðustu kosningum, varð að segja af sér vegna þess að nafn hans tengdist Panamamálum og skattaskjólshneyksli. Ekki bætti það úr veikri stöðu borgarstjórnarflokks þeirra.

Innan Sjálfstæðisflokksins skortir stuðning við Halldór Halldórsson leiðtoga flokksins í borginni. Hann þykir linur í stjórnarandstöðunni og ekki bætir úr skák að hann er talinn vera ESB-sinni sem flokksmenn kunna alls ekki að meta. Í röðum flokkseigenda er nú leitað með logandi ljósi að heppilegum leiðtoga listans í stað Halldórs. Ekki er hann að finna meðal hinna borgarfulltrúanna sem hafa fengið næg tækifæri án þess að sýna mikið. Leita verður út fyrir þeirra raðir. Einhverjir hafa gengið svo langt að nefna nafn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra og ráherra. Hana vantar starf og viðfangsefni og einhverjir vilja að hún “gangi aftur” inn í borgarmálin hjá Sjálfstæisflokknum. Vinir Dagfara í flokknum telja þetta afleita hugmynd og hafna henni algerlega. “Svona illa stödd erum við ekki”, sagði einn þeirra.

En hvað er þá til ráða? Í Sandkorni DV var stungið upp á Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda og einhverjir hafa nefnt bæjarstjóra úr nágrannasveitarfélögum. Ekkert af þessu er þó sennilegt því hæpið er að fólk í farsælum störfum vilji taka við svo löskuðu fleyi sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er. 

Líklegast er að Halldór Halldórsson leiði listann áfram. Það eru góðar fréttir fyrir Dag B. og félaga.

Dagfari ætlar nú að leyfa sér að spá því að Dagur muni koma saman framboði í anda Reykjavíkurlistans, sem felldi meirihluta Sjálfstæðisflokksins vorið 1994, og tryggja sér áframhaldandi völd í borginni. Þá yrði hann að sjálfsögðu borgarstjóri áfram.