Mun bensi sjá um áramótaskaupið?

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, hefur gert sig að kjána og aðhlátursefni eftir vanhugsað upphlaup sem gekk út á að hætta seðlanotkun á Íslandi.
 
Sl. fimmtudag átti að taka seðla úr umferð í landinu en daginn eftir var hann búinn að bakka með allt saman enda barinn niður í eigin þingflokki og meðal þingmanna og ráðherra hinna ríkisstjórnarflokkanna.
 
Benedikt snýst eins og vindhani í þessu máli. Hann ryðst fram á völlinn með vanhugsað mál sem kemur hrátt úr embættismanna-og sérvitringanefnd. Og svo hrökklast hann til baka strax daginn eftir.
 
Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um að Benedikt er ekki læs á umhverfið, hann kann ekki nógu vel á stjórnmál og ætti alls ekki að vera formaður í flokki enda tapar Viðreisn stöðugt fylgi undir formennsku hans.
 
Áform Benedikts um að hætta með seðla eru \"flopp\", sprenghlægilegt upphlaup skrýtinna manna. Andstæðingar Viðreisnar gleðjast en flokksmönnum getur ekki verið skemmt.
 
Þó heyrði ég einn þeirra segja að honum þætti eins og hann væri að horfa á áramótaskaupið þegar hann fylgdist með Benedikt éta ofan í sig fyrri yfirlýsingar í sjónvarpinu. Og bætti svo við: Getur hann ekki bara séð um skaupið og hætt í pólitík?
 
Sjálfstæðismaður sagði við mig að trúlega hafi Benedikt ætlað að taka íslenska krónu úr umferð með þessum hætti þannig að allir yrðu að kaupa evrur í staðinn. Ný aðferð til að hætta með krónuna en taka upp evrur í staðinn! Eina færa leiðin til að taka upp evrur.
 
Það er varla hægt að grínast með þetta mál sem lýsir stjórnlyndi og löngun til að fylgjast með þegnunum; stóri bróðir fylgist með þér. Enda áttu allar greiðslur að verða rafrænar.
 
Hugmyndin hélt aldrei vatni og hún var hrein rökleysa allan tímann. Tíuþúsund króna seðill var of stór hérna að mati Bensa sem vill ganga í ESB og taka upp evru þar sem dýrasti seðillinn er 500 evrur sem jafngildir 58,000 ÍKR. Þeir eru einnig með 200 og 100 evru seðla. Ætlaði hann svo að beita sér fyrir því að stóru evruseðlarnir yrðu einnig teknir úr umferð til að geta verið samkvæmur sjálfum sér?
 
Benedikt er greinilega stýrt af embættismönnum sem vilja þrengja sem mest að þegnum þessa lands. Það þarf pólitíska hæfileika til að sjá við embættismönnunum. Þá hæfileika virðist formann Viðreisnar skorta.
 
Þess vegna þarf Viðreisn að fá nýjan formann sem fyrst.
 
rtá.