Miðflokkurinn er einnota

Sigmundur Davíð vann það afrek að koma saman stjórnmálaflokki og framboðum á undraskömmum tíma. Árangurinn í kosningum er góður miðað við skamman fyrirvara. Sigmundur Davíð lítur á sig sem sigurvegara kosninganna og vísar til þess að flokkur hans hafi náð sama árangri og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar náði árið 1987 eftir klofning frá Sjálfstæðisflokknum.

 

Margt er líkt með tilurð Borgaraflokksins á sínum tíma og Miðflokksins núna. Báðir eru stofnaðir í skyndingu vegna ágreinings leiðtoga þeirra við sína gömlu flokka. Albert varð móðgaður út í forystu Sjálfstæðisflokksins vegna þess að honum var hafnað sem mögulegum ráðherra í framtíðinni. Sigmundur Davíð var sár og reiður út í félaga sína í Framsóknarflokknum vegna þess að þeir liðu ekki fjármálahneyksli og Tortólasvindl Sigmundar og settu hann af sem forsætisráðherra. Felldu hann síðan í formannskosningum. Stofnun beggja þessara flokka snérist um persónur formanna flokkanna, sært stolt fyrirferðarmikilla manna. Hvorugur flokkanna hafði tíma til að koma sér upp stefnu eða hugsjónum. Stefnuna spunnu formennirnir og meðframbjóðendur þeirra jafnóðum og þeir töluðu á fundum og í fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna.

 

Bæði Borgaraflokkurinn og Miðflokkurinn fengu 10,9% greiddra atkvæða og 7 þingmenn kjörna.

 

Formenn beggja flokkanna töldu sig sigurvegara kosninganna og kröfðust þess að fá umboð til stjórnarmyndunar í sínar hendur.

 

Enginn annar flokkur vildi samstarf við Borgaraflokkinn. Þriggja flokka ríkisstjórn var mynduð án aðkomu hans.

 

Því er spáð hér að enginn annar flokkur muni vilja mynda ríkisstjórn með aðkomu Miðflokksins og að hans bíði þau örlög að sitja ósáttur í stjórnarandstöðu.

 

Borgaraflokkurinn tærðist hratt upp í stjórnarandstöðu og fylgið hvarf jafn hratt og það kom til flokksins á nokkrum vikum. Formaður flokksins var gerður að sendiherra í París, leifarnar af flokknum gengu til liðs við ríkisstjórnina, flokkurinn dó drottni sínum og bauð ekki fram oftar. Borgaraflokkurinn var einnota.

 

Því er spáð hér að sömu örlög bíði Miðflokksins: Hann verður utan ríkisstjórnar, mun una hag sínum illa í stjórnarandstöðu, formaðurinn mun forða sér og Miðflokkurinn mun ekki bjóða fram oftar.

 

Einnota flokkar eru eins og flugeldar: Fara hratt upp með eldglæðingum – en falla svo jafnhratt til jarðar útbrunnir.

 

Rtá.