Matarástríðan blómstrar á Nielsen veitingahúsinu

Í hjarta Egilsstaða við Tjarnarbraut 1 stendur elsta hús bæjarins, frá árinu 1944, sem nýlega hefur verið uppgert af ungu pari, þeim Sólveigu Eddu Bjarnadóttur og Kára Þorsteinssyni sem létu draum sinn rætast að opna veitingastað Austur á Héraði fyrir liðlega tveimur árum. Húsið var teiknað og byggt af Dananum Oswald Nielsen árið 1944 og hefur því oftast verið kallað Nielsenshús af heimamönnum og ákváðu því Sólveig og Kári að halda nafninu og ber staðurinn þeirra því nafnið Nielsen veitingahúsið.

M&H Nielsen húsið 1.jpeg

Í þættinum Matur og Heimili í kvöld bregður Sjöfn Þórðar sér austur á Egilsstaði og heimsækir unga parið á hinn margrómaða veitingastað Nielsen og fær að heyra tilurð þess þau ákváðu að flytja úr skarkala höfuðborgarinnar og færa sig yfir í sveitasæluna fyrir austan, um matarástríðu þeirra og hugsjónir í matargerðinni.

M&H Nielsen  skyrrétturinni frægi 2 .jpeg

Mikill metnaður er í matargerðinni, aðeins hágæða íslensk hráefni eru notuð í matargerðina og réttirnir bornir fram með glæsilegum hætti bæði fyrir auga og munn. Kári hefur meðal annars starfað á hinum margrómaða veitingastað Dill og var yfirkokkur þar.

„Við höfum einbeitt okkur að því að bjóða upp á mat sem er unnin úr staðbundnu hráefni. Við reynum eftir fremsta megni að versla við framleiðendur á Austurlandi og öll hráefnin sem notast er við eru íslensk,“segja þau Sólveig og Kári sem hafa bæði drífandi ástríðu fyrir matargerð. Þau njóta sín best í samveru vina og fjölskyldu yfir góðum mat og drykk. Á Nielsen reyna þau eftir fremsta megni að deila þessari ástríðu sinni með matargestum.

Meira um matarástríðuna sem blómstrar sem aldrei fyrr á Nielsen í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.