Lúinn sjálfstæðisflokkur þarf góða hvíld

Mikilvægt er að eftir kosningarnar verði mynduð ríkisstjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn þarf á hvíld að halda og þjóðin þarf að hvíla sig á Sjálfstæðisflokknum. Síðustu 26 árin hefur flokkurinn verið með í ríkisstjórnum í 22 ár og utan stjórnar frá 2009 til 2013.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur haltrandi til kosninganna um helgina. Þrjár ríkisstjórnir í röð sem flokkurinn hefur átt aðild að hafa fallið og ekki náð að ljúka kjörtímabilum. Ímyndin um stöðugleika á vegum flokksins er dauð. Gamla glundroðakenningin er einnig dauð. R-lista samstarfið í Reykjavíkurborg frá 1994 til 2006 sannaði það að stöðugleiki er einnig mögulegur með samstarfi miðju-og vinstri flokka. Þá tókst Jóhönnu og Steingrími að halda vinstri stjórn saman heilt kjörtímabil, þó mikið gengi á. En þau luku því verkefni. Það er meira en Bjarna Benediktssyni hefur tekist í tveimur síðustu ríkisstjórnum. Þá er flokkurinn illa á vegi staddur vegna þeirra vafasömu mála sem formaður flokksins tengist frá viðkvæmum tímum skömmu fyrir hrunið. Afhjúpanir vegna þeirra mála nú rétt fyrir kosningar hafa sannarlega ekki hjálpað. Æ fleiri tryggin flokksmenn segjast vera orðnir dauðþreyttir á að verja gerðir formannsins. Þeir hafa fundið fyrir mikium mótbyr í kosningunum vegna fortíðar Bjarna og fjölskyldu hans.

Verði Sjálfstæðisflokkurinn utan ríkisstjórnar, gefst honum tækifæri til að endurnýja forystu flokksins og undirbúa mikla endurnýjun í þingliðinu. Menn geta horft á það hvernig alger endurnýjun hjá Samfylkingunni virðist ætla að skila flokknum þreföldun fylgis frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að reyna að læra af þessu.

Miðju-og vinstri flokkar geta lært af R-lista samstarfinu í Reykjavík. Þar komu saman fjórir flokkar, Alþýðuflokkur, Framsókn, Kvennalisti og Alþýðubandalagið og héldu saman í 12 ár. Þeim tókst að rjúfa hálfrar aldar nær óslitinn valdaferil Sjálfstæðisflokksins í borginni með svo góðum árangri að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enn ekki náð sér á strik í borginni.

Það sama verður unnt að gera núna. Því skyldu miðjuflokkar eins og Samfylking, Viðreisn, Framsókn og jafnvel fleiri ekki mynda stjórn með Vinstri grænum í anda R-listans og gefa Sjálfstæðisflokknum langþráð frí frá landsstjórninni til að sleikja sár sín og endurskipuleggja sig frá grunni?

Í stjórnmálum eins og viðskiptum skiptir traust öllu máli. Ef traust er ekki til staðar í fyrirtækjum, þá er yfirmönnum skipt út.

Sama hlýtur að gilda í stjórnmálum. Flokksformaður sem er rúinn trausti hlýtur að víkja. Flokkur sem er í sárum á að fara í endurhæfingu og freista þess að byggja sig upp að nýju.

 

Rtá.