Líklegra að bjarni sé maður að meiri

Dagfari 21. sept 2016

Náttfari gerir mikið úr því að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi sagt sig frá skýrslu Vigdísar Hauksdóttur sem hún segir að fjalli um einkavæðingu bankanna hina síðari. Málið gæti þó verið flóknara. Flest bendir til að Bjarni Benediktsson eigi hrósið fremur skilið. Það sé fremur hann sem er maður að meiri.

Málsatvik eru þau að Vigdís og Guðlaugur Þór tilkynna sameiginlega um skýrslu meirihluta fjárlagtanefndar. Þegar í ljós kemur að nokkrir embættismenn og lögmenn telja að vegið sé að þeim með ærumeiðingum og landráðabrigslum biðst Guðlaugur einn afsökunar. Það gera ekki aðrir í meirihlutanum

Næst kemur forseti Alþingis fram og þvær hendur löggjafarsamkomunnar af skýrslunni og vinnubrögðunum.

Því næst spyr ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, ráðuneytisstjóri formanns Sjálfstæðisflokksins, Harald Benediktsson að því hvort hann geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem því getur fylgt að bera fram þær ásakanir sem í skýrslunni felast. Haraldur bregst við með kröfum til fjármálaráðherra og umboðsmanns Alþingis að þaggað verði niður í ráðuneytisstjórnaum og hann látinn sæta ábyrgð fyrir hótanir.

Viðbrögð Haraldar minna helst á starfshætti í gamla sovétinu. Það er nokkuð augljóst að Bjarni Benediktsson hefur séð í hendi sér þegar hér var komið að hann gæti ekki tekið ábyrgð á þessum skrípaleik. Hann hefur afráðið að taka í taumana. 

Þannig er trúlegast að Bjarni hafi skipað meirihluta fjárlaganefndar þar á meðal Guðlaugi Þór að segja sig frá málinu og lát Vigdísi eina um ruglið. Til þess að auðmýkingin yrði ekki of mikil hefur hann fallist á að þau mættu biðja aðra þingnefnd um að skoða málið. 

Þetta er miklu sennilegri tilgáta en að Guðlaugur Þór hafi fundið þetta upp hjá sjálfum sér. Náttfari telur slíkt inngrip snöfurmannlegt og til álitsauka fyrir Bjarna Ben.