Leikrit í þremur þáttum eftir steingrím sigfússon og bjarna benediktsson

Langt er síðan sá illi grunur læddist að Dagfara að Bjarni Benediktsson og Steingrímur Sigfússon væru fyrir löngu búnir að ákveða að mynda ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokksins að loknum kosningum og taka Framsókn með til þess að tryggja óbreytt ástand í sjávarútvegi, landbúnaði, vaxtamálum, gengismálum,  gagnvart ESB og útlöndum almennt. 

Þetta eru allt flokkar einangrunarstefnu og stöðnunar og því ætti ekki að taka langan tíma að mynda ríkisstjórn þeirra. Auk þess vill enginn þeirra jafna kosningarétt því styrkur þeirra er meiri í landsbyggðarkjördæmunum en hér í þéttbýlinu þar sem Dagfari og aðrir hafa hálft atkvæði á móti kjósendum úti á landi.

Þær “stjórnarmynduarviðræður” sem fram hafa farið til þessa eru einungis þættir í leikriti sem Bjarni og Steingrímur eru höfnudar að. Fyrst þurfti Bjarni að reyna að mynda hægri og miðjustjórn til að sýnast. Hann var fljótur að slíta viðræðunum, sinnti samningaviðræðunum ekki að fullu sjálfur og tók með sér léttaviktarfólk í verkið en hleypti reyndum þingmönnum ekki að borðinu, t.d. ekki Guðlaugi Þór eða Kristjáni Júlíussyni sem að sjálfsögðu hefðu átt að vera þarna í fremstu víglínu.

Þá fékk formaður VG umboðið til að reyna vinstri og miðjustjórn fimm flokka. Hún veit jafnvel og aðrir að slík stjórn verður ekki til. Þó ekki væri nema vegna Pírata sem eru ekki stjórnmálaflokkur heldur einhvers konar samansafn sérvitringa og uppreisnarseggja með Birgittu sjálfa í forsvari en hún er eins og stjórnlaus gereyðingareldflaug.

Senn lýkur öðrum þætti leikritsins. Þá verður hlé. Svo hefst þriðji og síðasti þáttur leikrits þeirra Steingríms og Bjarna Ben.

Þá verða færðar fram þær afsakanir að ekki sé unnt að mynda “sterka” stjórn nema með þessum “sterku” flokkum sem eru þó á sín hvorum væng stjórnmálanna. Svo verður sagt eitthvað á þá leið að neyðin kenni nakinni konu að spinna, landið geti ekki verið stjórnlaust, það þurfi að afgreiða fjárlög fyrir jólin og því verði pólitískir andstæðingar “að sýna ábyrgð” og grafa stríðsaxirnar út frá þjóðarhag.

Í anda þess dregur VG til baka áform sín um stórfelldar skattahækkanir sem notuð voru til heimabrúks til að stúta hugmyndinni um fimm flokka ríkisstjórn. Nú verður samið um óbreytta skattastefnu, ekki hækkað og ekki lækkað. Allir þessir þrír framsóknarflokkar taka höndum saman fagnandi yfir því að engu verði breytt í sjávarútvegi, landbúnaði, Evrópumálum, varðandi krónuna og alls ekki farið í að hrófla við þeim ójöfnuðu sem ríkir varandi vægi atkvæðisréttar. Öll dýrin í skóginum verða vinir í öruggu stöðnunarferli næstu fjögur árin.

Bjarni verður forsætisráðherra. En það sem mestu máli skiptir er að Steingrímur J. mætir að nýju í fjármálaráðuneytið og gætir þess að lokinu verði ekki lyft af ormagryfju vafasamra mála sem hann og Bjarni Benediktsson vilja fyrir alla muni halda utan dagsljóssins. Ekki má sýna aðkomu Steingríms að ýmsum Vafningum og snúningum Bjarna og hans nánustu frá árunum 2009 og 2010. Sú varðstaða gengur framar öllu og er ástæða þess að handrit þessa leikrits varð til.

Leikriti í þremur þáttum lýkur með þriggja framsóknarflokka stjórn sægreifanna. 

Tjaldið fellur.

 

.