Kristján var í öndunar­vél með Co­vid-19: „Þú varst að deyja, pabbi. Þeir rétt björguðu þér“

„Þessum degi mun ég aldrei gleyma,“ segir Kristján Gunnars­son sem veiktist illa af Co­vid-19 um daginn sem hann út­skrifaðist af lungna­deild Land­spítalans. Kristján sagði sögu sína í frétta­skýringa­þættinum Kveik á RÚV í kvöld en hann varð 64 ára daginn sem hann út­skrifaðist.

Það var um miðjan mars að fyrstu ein­kenni gerðu vart við sig hjá Kristjáni. Ekki var þó um dæmi­gerð ein­kenni að ræða til að byrja með heldur aðal­lega hiti og höfuð­verkur. Hann á­kvað þó að drífa sig til læknis eftir að hafa verið með 40 stiga hita í nokkra daga.

Til að taka af allan vafa um hvort um Co­vid-19 væri að ræða var tekið stroku­próf en það reyndist nei­kvætt. Kristján hélt því heim á leið en samt sem áður lækkaði hitinn ekki. Hann fór því aftur til læknis og aftur var tekin prufa en í annað skiptið reyndist hún nei­kvæð fyrir Co­vid-19.

Í þættinum í kvöld kemur fram að lungna­berkju­próf hefði loks leitt í ljós að Kristján væri með Co­vid-19 eftir að tvö stroku­próf úr nefi og munni reyndust nei­kvæð. Honum var hraðað inn á Hring­braut þar sem hann var svæfður og settur í öndunar­vél.

Í þættinum rifjaði Kristján upp veruna á gjör­gæslu­deild Land­spítalans og segist hann til dæmis hafa fengið slæmar mar­traðir og liðið eins og sótt væri að honum úr öllum áttum.

Sem betur fer braggaðist Kristján og var hann fluttur í ein­angrun á lungna­deild þegar hann vaknaði. Það hafi ekki verið gott en þó verið betra en að vera á öðrum, verri stað. „Það var alltaf það sem mér var sagt: Þú varst að deyja, pabbi. Þeir rétt björguðu þér.“

Kristján hefur verið á Reykja­lundi síðan hann út­skrifaðist, en sex sjúk­lingar eru komnir þangað til með­ferðar eftir að hafa út­skrifast af Land­spítalanum. Eins og kom fram hér fremst gleymir Kristján ekki deginum þegar hann út­skrifaðist en í þættinum var til að mynda spiluð upp­taka af því þegar starfs­fólk lungna­deildarinnar söng fyrir hann af­mælis­sönginn og færði honum köku í til­efni dagsins.

„Ég er kannski mest þakk­látur yfir því að geta haldið upp á hann (af­mælis­daginn) því það var alveg ó­víst. Svo var þetta yndis­lega fólk á lungna­deildinni, þegar þær voru að kveðja mig, þá sungu þær fyrir mig af­mælis­sönginn og komu með tertu. Það er þetta sem ég er að tala um með þetta auka við­mót sem kannski fleytir mönnum á­fram. Ég komst í gegnum þetta af því að heil­brigðis­kerfið er svo gott þegar kemur að því hvernig starfs­fólk gefur þetta auka­dæmi inn. Það er ekkert sjálf­gefið.“

Hér má nálgast þátt Kveiks.

Mynd: Skjáskot úr umfjöllun Kveiks.