Krísa og örvænting í reykjavík

Sjálfstæðismenn í Reykjavík virðast vera að fara á taugum vegna komandi borgarstjórnarkosninga. Ákveðið var að efna til leiðtogaprófkjörs vegna kosninganna og í næstu viku rennur út frestur til að bjóða sig fram. Enginn hefur ennþá tilkynnt um framboð nema Kjartan Magnússon sem andstæðingar flokksins vona að muni leiða Sjálfstæðisflokksins í vor.

 

Fýlan lekur af áhrifamönnum í flokknum vegna þeirrar veiku stöðu sem flokkurinn er í. Þannig skrifar Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður SUS, kuldalegan pistil þar sem staðan er dregin saman svona: “Það þarf því engan að undra að það virðist ekki vera eftirspurn eftir þeim sem eru í framboði og ekki framboð af þeim sem eftirspurn er eftir.”

 

Davíð Þorláksson fjallar einnig um gamla tíma þegar flokknum gekk vel á árunum 1962 til 1990 og hafði að meðaltali 51% fylgi á bak við sig. Síðan hefur leiðin legið niður á við í 24 ár. Staðan hefur aldrei verið verri en nú enda er flokkurinn einungis með 4 borgarfulltrúa af 15 en var lengst af með 8 til 10 borgarfulltrúa. Ekki bætir úr skák að flokksstarfið í borginni er veikt og ómarkvisst. Fyrrverandi formaður SUS, sem er öllum hnútum kunnugur í flokknum, gefur því falleinkunn: “Grasrót flokksins í Reykjavík hefur verið sundurtætt af innanflokksátökum og hefur því ekki verið í stakk búin til að taka á vandanum.”

 

Skjálftinn innan flokksins í borginni er áþreifanlegur og kemur m.a. fram í því að Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður flokksins og ráðherra, fær nú útrás fyrir reiði sína og særindi frá því hann tapaði prófkjöri fyrir Guðlaugi Þór Þórðarsyni haustið 2006. Hann ræður greinilega ekki við ellefu ára gamalt svekkelsi sitt og hefur engu gleymt þegar hann fjallar um vanda flokksins í Reykjavík og reynir að gera Guðlaug Þór ábyrgan fyrir vandanum:

 

“Gegn þessari þróun verður að snúast. Innan Sjálfstæðisflokksins hvílir sú skylda fyrst og síðast á Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, sem hefur lagt mest af mörkum til þess valdakerfis sem þróast hefur innan flokksins í höfuðborginni og sækir orku sína til innbyrðis átaka frekar en baráttu við andstæðinga flokksins.”

 

Það er ekki von á góðu hjá Sjálfstæðisflokknum í höfuðborginni ef “forystumenn” flokksins eru svo tapsárir að þeir geti ekki sætt sig við ellefu ára gömul vonbrigði frá því í prófkjöri. Íþróttamenn sem kunna ekki að tapa leik og kenna dómaranum eða andstæðingunum um í stað þess að líta í eigin barm, ná ekki langt. Sama gildir um stjórnmálamenn enda er svo komið að menn eins og Björn Bjarnason eru farnir að valda Sjálfstæðisflokknum verulegum og varanlegum skaða. Flokkurinn mun ekki rétta úr kútnum fyrr en hann losnar við það aumkunnarverða svartstakkalið frá fyrri tímum sem Björn tilheyrir og ennþá íþyngir flokknum.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitað logandi ljósi að einhverjum þokkalega trúverðugum til að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum. Ekki er vitað um neinn slíkan sem ætlar að gefa kost á sér. Ótrúlegar hugmyndir hafa skotið upp kollinum og þykja sumar þeirra bera vott um mikla örvæntingu flokksforystunnar. Í Fréttablaðinu í gær er fjallað um málið og nefnd nokkur nöfn fólks sem mun hafa verið leitað til.

 

Halldór Halldórsson, fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði, leiddi lista flokksins í kosningunum 2014 eftir að hafa sigrað í prófkjöri. Flokkurinn hlaut þá verstu kosningu frá upphafi og náði einungis 4 mönnum kjörnum. Undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fengust þó 5 menn kjörnir, Björn Bjarnason náði 6 mönnum þegar hann leiddi listann en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Árni Sigfússon gerðu betur og fengu 7 menn kjörna þegar þeir leiddu lista flokksins. Stöðug niðursveifla frá árinu 1994.

 

Reynsla flokksins af því að sækja sér sveitarstjórnarmann í lítið þorp út á landi er ekki góð enda gefur Halldór Halldórsson ekki kost á sér að nýju. En þá dettur einhverjum í hug að fá í staðinn gamla sveitarstjórnarmenn; Unni Brá frá Hvolsvelli eða Eyþór Arnalds frá Selfossi. Mönnum er greinilega ekki sjálfrátt í þessum flokki!

 

Einhverjir hafa nefnt nafn Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda og Ásdísar Höllu Bragadóttur aðaleiganda Klínikurinnar í Ármúla, sem Kári Stefánsson hefur nefnt “Ármúlasjoppuna”. Ásdís er vægast sagt umdeild og gæti mætt miklum mótbyr ef hún færi fram. Þá yrði margt rifjað upp. Eini maðurinn sem nefndur hefur verið og gæti orðið faglegur frambjóðandi er Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Ísavía. Atvinnulífsforystan tæki honum fagnandi. En hann er ekki þekktur meðal almennings og vandséð er að sextugur karlmaður gæti dregið fylgi að lista flokksins þó hann sé frambærilegum stjórnandi. Jón Karl er mikill vinur Guðlaugs Þórs og því gætu svartstakkarnir ekki stutt hann.

 

Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er í mikilli kreppu og örvænting er farin að gera vart við sig. Menn óttast að fylgið fari í fyrsta sinn niður fyrir 20% sem yrði reiðarslag.

 

Mun bjargvættur finnast? Verður Hanna Birna Kristjánsdóttir tekin í sátt að nýju, endurreist í flokknum og fengin til að leiða listann í Reykjvík.

 

Neyðin kennir nakinni konu að spinna. Það góða er að þegar neyðin er stærst – þá verður hún ekki stærri.

 

Rtá.