Kosningaskjálfti veldur skyndilegri umhyggju jóns og bjarna ben

Aulahrollur hríslast um mann þegar fram kemur að Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Bjarni Benediktsson ætli í dag að heimsækja “flóðasvæðin” á Austurlandi til að sýna heimamönnum – eða eigum við ekki frekar að segja kjósendum – samstöðu og umhyggju vegna úrhellisrigninga sem valdið hafa vatnavöxtum í ám og lækjum fyrir austan.

Það er býsna algengt að úrhellisrigningar og jafnvel aurskriður valdi truflunum og óþægindum á Íslandi. Við erum vön því í þessu harðbýla landi. En það hefur ekki hingað til þótt tilefni til heimsókna frá ráðherrum eða þingmönnum þó vond veður herji tímabundið á einstök landssvæði hér á landi.

En nú eru að koma kosningar og þá blossar umhyggja stjórnmálamannanna upp í nokkrar vikur. Bjarni Ben og Jón Gunnarsson vilja nú sýna kjósendum hve vænt þeim þykir um fólkið á “flóðasvæðunum”!  Vonandi lætur sjónvarpið þessi stórtíðindi ekki fram hjá sér fara. Eigum við ekki að búast við umfjöllun sjónvarps í kvöld vegna þessarar heimsóknar þeirra til Austfjarða? Jú, það verður passað upp á að þessi stórtíðindi komist til skila.

Þetta sýnir að mikill kosningaskjálfti gerir nú vart við sig. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 23% í skoðanakönnun MMR í gær. Þá hefur trúlega verið skotið á neyðarfundi með PR-ráðgjafa flokksins sem hefur m.a. ráðlagt þeim að byrja á að heimsækja “flóðasvæðin”. Þessi ráðgjafi heitir Friðjón Friðjónsson og kom mjög við sögu þegar reynt var að hífa Hönnu Birnu Kristjánsdóttur upp úr klúðrinu sem hún kom sér í með ósannindum og valdníðslu. Friðjón lagði upp hernaðaráætlun fyrir hana. Við munum öll hvernig það endaði.

Framundan er meiri kosningaskjálfti en við höfum séð lengi. Við munum sjá frambjóðendur gera margt kjánalegt á næstu fjórum vikum.

Rtá.